
„Þetta var bara hörkuleikur og mér fannst við aðeins betri, sóknarlega sérstaklega. Þær voru að spila fínan varnarleik en við komumst í gegn og náðum að setja þrjú mörk sem er mjög sterkt,” sagði Rakel Hönnudóttir fyrirliði Breiðabliks eftir 3-0 sigurinn á ÍBV.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 0 ÍBV
Breiðablik gerði nánast út um leikinn með tveimur mörkum um miðjan fyrri hálfleikinn og það fleytti þeim langt í áttina að sigri.
„Við skoruðum tvö mörk með stuttu millibili og það er erfitt að fá tvö mörk á sig þannig að þær kannski brotnuðu aðeins niður í fyrri hálfleik. En þær komu sterkar inn í seinni hálfleikinn aftur þannig að þetta var fínn sigur.”
Síðari hálfleikur var rólegri en sá fyrri og yfirburðir Blika ekki eins miklir og í fyrri hálfleiknum. Rakel segir að liðið hafi mögulega slakað á ósjálfrátt.
„Þegar maður er að vinna 3-0 þá slakar maður kannski á ósjálfrátt en við hefðum kannski átt að keyra bara alveg yfir þær. En þetta dugði.”
Það er óhætt að segja að dagurinn hafi verið gjöfull fyrir fyrirliðann en fyrr í dag var hún valin í landsliðshópinn sem mætir Skotlandi og Slóveníu og hún var þar að auki best á vellinum í kvöld
„Ég er mjög sátt með daginn. Þetta var bara snilldardagur fyrir mig allavegana.”
Sigurinn i kvöld var Blikum afar mikilvægur en liðið er aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Stjörnunnar sem þær mæta á laugardag. Rakel vonast eftir skemmtilegum leik og bíður þess með eftirvæntingu að spila hann.
„Þetta verður vonandi mjög skemmtilegur leikur og ég hlakka mikið til þess að spila hann. Það verður bara að koma í ljós hvernig hann fer. Þetta verður mjög spennandi og ég vona að sem flestir áhorfendur láti sjá sig."
Athugasemdir