Logi Hrafn Róbertsson leikmaður FH var ánægður með að enda tímabilið á sigri og sáttur með tímabilið í heild sinni. FH vann 3-1 sigur á KR í dag í lokaleik deildarinnar.
Lestu um leikinn: FH 3 - 1 KR
„Mér fannst þetta bara ganga vel. Þetta var svolítið upp og niður hjá okkur, það vantaði kannski stöðugleika og ná að tengja saman sigra. En þetta er bara fyrsta árið í uppbyggingu en við ætlum að gera ennþá betur á næsta ári."
FH endaði tímabilið í fyrra nálægt fallsæti og það voru margir sem spáðu liðinu neðar en þeir enduðu á þessu tímabili. Logi segir samt að markmiðið hafi verið sett hærra en þetta þó að hann sé sáttur með árangurinn.
„Við vorum með markmið að ná Evrópu sem við klikkum kannski bara sjálfir á, en það er alveg hægt að taka fullt af jákvæðum hlutum út úr þessu tímabili, alveg klárt mál."
Logi hefur verið fastamaður í liðinu þó hann sé aðeins 19 ára gamall og þá er spurning hvort hann fari að setja stefnuna á að komast út.
„Auðvitað er markmiðið alltaf að komast í atvinnumennsku en ég var bara að fókusera að klára tímabilið hérna heima og svo erum við að fara í tvo mikilvæga leiki með u21 liðinu núna og bara fullur fókus á það."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.