Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 07. nóvember 2022 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Var staðráðinn í að fara ekki til Íslands - „Tvö rétt skref í röð"
Mig langaði að sýna mig og sanna hér og það vonandi heppnaðist.
Mig langaði að sýna mig og sanna hér og það vonandi heppnaðist.
Mynd: Guðmundur Svansson
Ég tel mig hafa tekið tvö rétt skref í röð, fyrst að fara frá Fjölni í Val og svo frá Val í Häcken
Ég tel mig hafa tekið tvö rétt skref í röð, fyrst að fara frá Fjölni í Val og svo frá Val í Häcken
Mynd: Guðmundur Svansson
Valgeir í baráttunni við Andra Lucas Guðjohnsen í gær.
Valgeir í baráttunni við Andra Lucas Guðjohnsen í gær.
Mynd: Guðmundur Svansson
Ég held að þetta sé fullkominn staður fyrir unga leikmenn til að vera á, sérstaklega þegar liðið spilar vel og flottan fótbolta.
Ég held að þetta sé fullkominn staður fyrir unga leikmenn til að vera á, sérstaklega þegar liðið spilar vel og flottan fótbolta.
Mynd: Guðmundur Svansson
Lokaleikur tímabilsins fór fram í gær. Vel fagnað eftir leik.
Lokaleikur tímabilsins fór fram í gær. Vel fagnað eftir leik.
Mynd: Guðmundur Svansson
Greinileg ánægja með Valgeir.
Greinileg ánægja með Valgeir.
Mynd: Guðmundur Svansson
Valgeir Lunddal Friðriksson var í stóru hlutverki þegar Häcken varð sænskur meistari. Liðið tók á móti sigurverðlaununum í gær eftir jafntefli gegn Norrköping þar sem Valgeir lagði upp eitt af mörkum Häcken.

Valgeir er 21 árs hægri bakvörður sem gekk í raðir Häcken fyrir tímabilið 2021. Hann spilaði ekki í fyrra, skoðaði að fara á láni í sumarglugganum en kláraði tímabilið með Häcken sem endaði í 12. sæti deildarinnar.

Síðasta vetur ræddi hann við Fótbolta.net og var fastur á því að hann ætlaði sér ekki að koma heim, ætlaði sér að taka slaginn áfram. Valgeir kom við sögu í 26 af 30 leikjum liðsins í deildinni.

Draumatímabil
„Það var keyptur inn hægri bakvörður (Tomas Totland) fyrir tímabilið og ég hafði á tilfinningunni fyrir tímabilið að ég myndi ekki byrja fyrstu leikina. Svo veiktist bakvörðurinn í landsleikjahléinu í mars. Eftir að ég kom heim úr landsleikjunum var stutt í fyrsta leik, þá var bakvörðurinn mættur til baka til æfinga. Ég stóð mig vel á æfingunum fyrir fyrsta leik og fékk sénsinn, við unnum AIK og það gerði helling fyrir mig, fékk mjög mikið sjálfstraust. Ég átti mjög góðan leik og þá jókst trúin á mér og því liði, margir tala um að það eigi ekki að breyta sigurliði. Þetta var þannig séð draumatímabil fyrir mig," sagði Valgeir.

Aldrei lent í svona leik
Hann segir að leikurinn gegn Sirius um mitt tímabil sé sá minnistæðasti. Valgeir var tæpur fyrir leik vegna meiðsla en kom inn á undir lokin. „Þessi leikur er mesti rússíbani sem ég hef lent í." Valgeir kom inn á í stöðunni 2-2.

„Við vinnum leikinn 4-3. Ég kom inn á 85. mínútu, við skorum mínútu eftir það, svo skora þeir á síðutu sekúndunni í uppbótartíma og jafna í 3-3. Við tökum miðju, bombum boltanum upp, við vinnum einn skallabolta og skorum með síðustu spyrnu leiksins. Þetta var minnistæðasti leikurinn á tímabilinu, að hafa náð í þrjá punkta. Það voru margir sem eru komnir á seinni hluta ferilsins sem sögðu að þeir hefðu aldrei lent í svona í leik. Það sýnir hvað þetta var sérstakt."

Spilaði í vinstri bakverði eins og hjá Val
Valgeir lék oftast sem hægri bakvörður á tímabilinu en stundum sem vinstri bakvörður. „Ég var kominn á bekkinn á tímabili og við vorum að vinna leiki, ekkert tilefni til að breyta liðinu. Þá var vinstri bakvörðurinn okkar tæpur vegna meiðsla og sér ekki fram á að klára leikinn. Ég á mjög góðan leik í vinstri bakverðinum, við vinnum leikinn og ég byrja næstu þrjá leiki eftir það í vinstri bakverði. Ég spilaði vel og var ánægður að fá mínútur í liðinu."

Valgeir lítur á sig sem hægri bakvörð, það sé draumastaðan, en segist vera alveg sama hvar hann spilar svo lengi sem hann spilar. „Það sást þegar ég var í Val að ég gat spilað vinstra megin, komið inn á völlinn og notað hægri fótinn. Það er ekkert vesen."

Stendur miklu meira upp úr en Íslandsmeistaratitilinn
Viðtalið við Valgeir var tekið í síðasta viku og þá var Valgeir ekki búinn að taka við sigurverðlaununum. Hann var þó spurður hvernig hann mæti þennan titil samanborið við Íslandsmeistaratitilinn með Val árið 2020.

„Þetta stendur mikið meira upp úr. Ég fékk að upplifa sömu tilfinningu og Breiðablik gerði núna, að fá verðlaunin í hendurnar og fá að lyfta skildinum upp fyrir framan fulla stúku af áhorfendum. Það var svekkjandi að þurfa vinna titilinn í einhverju svona ástandi (Covid), tímabilið var ekki klárað."

Tekið tvö rétt skref í röð
Hversu ánægður ertu með þetta skref að hafa farið til Häcken undir lok árs 2020?

„Ég er mjög ánægður. Ég tel mig hafa tekið tvö rétt skref í röð, fyrst að fara frá Fjölni í Val og svo frá Val í Häcken. Vonandi heldur það áfram að eiga sér stað, að ég taki rétt skref á ferlinum. Häcken er mjög flott félag, liðið hefur verið að ná í Evrópusæti, orðið bikarmeistari og er þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum séns og selja áfram. Þetta er engin endastöð fyrir marga leikmenn. Leikmenn eins og ég, og margir í liðinu, vilja ná hærra og lengra. Ég held að þetta sé fullkominn staður fyrir unga leikmenn til að vera á, sérstaklega þegar liðið spilar vel og flottan fótbolta."

Alla langar að spila í topp fimm deildunum
Hvert langar þig að fara sem næsta skref á ferlinum?

„Það er mjög erfitt að segja. Auðvitað stefni ég hátt. Eins og er líður mér mjög vel hér, er á flottum stað hér í Gautaborg. Auðvitað stefni ég lengra en veit svo sem ekki núna hvað næsta skref ætti að vera. Alla langar að spila í topp fimm deildunum og fá að spila fyrir framan mörg þúsund áhorfendur á hverjum einasta leik."

Var staðráðinn í að vera áfram úti
Var einhver rödd sem sagði síðasta vetur við Valgeir að hann ætti að taka skrefið til baka, fara aftur heim til Íslands?

„Nei, það var aldrei í boði. Ég var staðráðinn að vera áfram, allavega ekki fara heim. Ég vildi vera áfram úti og ef að ég myndi fara þá yrði það innan Svíþjóðar eða annars staðar úti í heimi. Mig langaði að sýna mig og sanna hér og það vonandi heppnaðist. Ég sé ekki eftir því að hafa haldið áfram hérna," sagði Valgeir.

Annað úr viðtalinu:
Ekki séð glaðara fólk á ævinni - Hugsaði ekki um að geta orðið meistari með Häcken
Valgeir Lunddal: Maður stefnir alltaf hátt en þetta toppar allt
Athugasemdir
banner
banner
banner