Umræðan um kvennaknattspyrnu hefur aðeins verið í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins hefur m.a. haldið þessari umræðu á lofti, ásamt fleirum. Aðkoma mín að þessum málaflokki kemur m.a. í gegnum stjórnmálafræðinámið mitt og ýmis félagsstörf. Þar hef ég m.a. kynnt mér umhverfið fyrir knattspyrnuiðkun með sérstöku tilliti til kynja.
Nú á dögunum skrifaði Þórður Einarsson grein inná fotbolti.net þar sem hann bendir á eina hlið vandamáls kvennaknattspyrnu og segir m.a. þessa þrjá punkta :
„Vilji fólk og þá einkum konur meiri umfjöllun um kvennaknattspyrnu þá er auðvelt að bæta úr því. Lausnin er ekki að gráta yfir því hvað fjölmiðlar sinna þessu illa heldur hitt, konur mætið á völlinn og styðjið ykkar lið! “
….
„Það er einföld staðreynd að áhorf á markaþátt RÚV á sínum tíma frá kvennaknattspyrnu var lélegt. Það er staðreynd að fréttir á Fótbolti.net um kvennafótbolta eru verr lesnar en vel flestar greinar og það er staðreynd að fjölmiðlar utan RÚV eru einkafyrirtæki sem sækjast eftir lestri, áhorfi og auglýsingatekjum. Því er kvennaknattspyrnan einfaldega ekki að skila “
…
,, En að ætlast til þess að fjölmiðlar sendi menn á leiki og mót kvenna í knattspyrnu, ekki útaf áhuga fólks eða vegna ótrúlegs skemmtanagildis, heldur samúðar og vorkunnar eða í nafni jafnréttis er auðvitað kjánalegt og niðurlægjandi fyrir konur. “
Kannski er ég að slíta viðhorf Þórðar úr samhengi, en greinin hans er góð og gild, enda bendir hann á hið einfalda lögmál um að fjölmiðlar fjalla um það sem eftirspurn er um. Þetta viðhorf tel ég vera ansi algengt í umræðunni um íslenska kvennaknattspyrnu og því vil ég benda að annað markaðslögmál. Til að kvennaknattspyrnan byrji að „skila“, þá þarf að fjárfesta í henni.
Knattspyrna er með vinsælustu íþróttum meðal kvenna á Íslandi. Tölur er misgóðar eftir því hvort þú skoðar áhorf, fjölda iðkenda, mætingu á leiki eða annað. Flest bendir þó til þess að þessi íþrótt sé með vinsælustu íþróttum meðal kvenna á Íslandi. Fjöldi iðkenda hefur raunar vakið athygli UEFA sem birti nýlega fyrstu niðurstöður úr skýrslu sinni um kvennaknattspyrnu í Evrópu og þar kemur fram að hlutfall kvenna sem leika knattspyrnu á Íslandi af heildarfjölda þjóðarinnar er með því hæsta í Evrópu.
En hversu dræm er umfjöllun fjölmiða í raun og veru. Anna Guðrún Steindórsdóttir gerði rannsókn um íþróttafréttir í dagblöðum árið 2007. Anna skoðaði sérstaklega kynjahlutfallið og kemur þar fram að 87,14% íþróttafrétta eru um karlmenn og 9,70 % um kvenmenn. Þá er fjallað mest um knattspyrnu eða 48,8 % um karlaknattspyrnu og 3,8 % um kvennaknattspyrnu.
Mín skoðun er sú að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað kvennaknattspyrnan á Íslandi er nýleg íþrótt og hvé stutt saga hennar er í raun. Fyrsti alvöru kvennaknattspyrnuleikurinn var haldinn árið 1970, þegar lið Keflavíkur og Reykjavíkur kepptu á undan karlalandsleik á Laugardalsvelli. Árið 1972 var íslandsmót kvenna spilað í ágúst eftir því fyrirkomulagi að konur spiluðu í strigaskóm, knötturinn væri lítill, þær fengju að taka hornspyrnu frá vítateig og að leiktíminn væri 2x30 mínútur. Svona gekk þetta hægt fyrstu árin, en fór svo að taka við sér uppúr árinu 1980.
Kvennalandsliðið var stofnað árið 1981 og fyrsta bikarmeistaramót kvenna var haldið árið 1982. Hafðu í huga að á sama tíma var fyrsta knattspyrnufélagið á Íslandi stofnað árið 1899 og frá 1911 hafa verið haldin knattspyrnumót fyrir karlmenn.
Viðhorf fréttamanns Þjóðviljans sem skrifaði um kvennaleikinn árið 1970 gefur sterka vísbendingu um viðhorf til stúlknanna sem kepptu þennan leik en hann segir m.a. : ,, Augnayndi gæti það nú orðið íslenzkum knattspyrnuunnendum, sem flestir eru af sterkara kyninu,að fá að sjá fallegar stúlkur leika knattspyrnu og þarf varla að efa að hún yrði vinsæl íþróttagrein hér á landi. “.
Kvennaknattspyrna á Íslandi er nýleg íþrótt og það mun taka tíma að koma henni á sama stað og karlaknattspyrnu, sem hefur verið stunduð með skipulögðum hætti hér á landi í yfir eina öld. Flestar ef ekki allar íþróttir í heiminum hafa þurft lengri tíma en 30 ára til að mótast, kveikja mikinn áhuga og byrja að „skila“. Kvennaknattspyrnan hefur hins vegar fulla burði til þess að verða jafnvinsæl og karlaknattspyrnan hér á landi, enda með ótrúlegan fjölda iðkenda, frábærar aðstæður og ekki skemmir fyrir árangur kvennalandsliðsins okkar.
Til þess að kvennaknattspyrnan byrji að „skila“ þarf hins vegar að fjárfesta í henni. Ég æfði fótbolta alla mína æsku og þegar ég lít tilbaka þá man ég vel hvé lítið var fjárfest í kvennaknattspyrnu. Þegar íþróttakennarar í grunnskóla létu okkur strákana spila fótbolta, þá stunduðu stelpurnar oft „hentugri“ leikfimi í hliðarsal. Sama var uppá teningnum þegar framhaldsskólinn og háskólinn héldu aðeins knattspyrnumót fyrir strákana. Hvernig stóð á því að stuðningamannahópar íþróttaliða héldu grillveislur fyrir alla yngri flokkana fyrir karlaleikina, en gleymdu jafnvel að tilkynna kvennaleikina á vefsíðunni sinni. Verst þykir mér þó í dag þegar fyrirtæki styrkja myndarlega við meistaraflokka karlaliðana en „gleyma“ kvennaliðinu. Ef þú tekur upp kynjagleraugun og skoðar kerfið í heild sinni þá sérðu vel hvé lítið er fjárfest í kvennaknattspyrnunni.
Ég enda því þessa grein mína með því að skora á KSÍ, íþróttafélögin, fyrirtæki, fjölmiðla, skólana og ykkur öll að skoða þennan fjárfestingarmöguleika sem kvennaknattspyrnan er. Ég hef grun um að hún muni byrja að „skila“ bráðlega.
Arnþór Gíslason
Söguhluti greinarinnar kemur frá lokaritgerð Kristínar Evu Bjarnadóttir um íslenska kvennaknattspyrnu sem er opin almenningi inná skemman.is.
Athugasemdir