Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 08. janúar 2020 11:51
Elvar Geir Magnússon
Zaniolo grét og ætlaði að hætta í fótbolta
Nicolo Zaniolo (til hægri).
Nicolo Zaniolo (til hægri).
Mynd: Getty Images
Hinn tvítugi Nicolo Zaniolo er lykilmaður hjá Roma og lék á liðnu ári sína fyrstu landsleiki fyrir Ítalíu. Þessi sköpunarglaði miðjumaður segir frá því í nýju viðtali að hann hafi verið nálægt því að hætta í fótbolta fyrir nokkrum árum síðan.

Fiorentina losaði hann úr akademíu sinni.

„Þegar ég var yngri var ég ekki leikmaður sem fólk vissi að myndi ná langt. Ég var frekar lítill og tók líkamlegan þroska út seinna en aðrir strákar. Ferill minn komst á flug þegar Fiorentina sagði mér að ég mætti ekki æfa með þeim lengur," segir Zaniolo.

„Þá gekk ég í raðir Virtus Entella og fékk meira svigrúm. Þar var fólk sem hafði trú á mér. Ég man að ég sat á kaffihúsi með pabba mínum og grét, sagði honum að ef ég fengi ekki spiltíma þar þá þyrfti ég að skipta um íþrótt eða finna mér aðra leið í lífinu. Ég hugsaði að ég væri kannski ekki með þetta."

Faðir hans er Igor Zaniolo, fyrrum sóknarmaður hjá Genoa.

„Pabbi sagði mér að gefa allt í þetta, svo ég myndi ekki geta séð eftir neinu. Ég gerði það og eftir það var ekki aftur snúið," segir Zaniolo.

Zaniolo spilaði fyrsta leik sinn fyrir aðallið Entella í ítölsku B-deildinni í mars 2017, þá 17 ára og átta mánaða. Hann var keyptur til Inter og var svo seldur til Roma 2018, sem hluti af samningnum þegar Inter keypti Radja Nainggolan.
Athugasemdir
banner
banner