Elvar Geir Magnússon skrifar frá Lettlandi

Sóknarmaðurinn skæði Alfreð Finnbogason er kominn aftur í íslenska landsliðshópinn en hann var ekki með gegn Tyrkjum í fyrsta leik. Alfreð segist tilbúinn að byrja gegn Lettum.
„Það var erfitt að vera utan vallar síðast en samt gaman að sjá hve vel liðið spilaði. Það er mjög skemmtilegt að vera kominn aftur," segir Alfreð en er hann orðinn hátt í 100% klár eftir meiðslin?
„Það verður bara að koma í ljós þegar maður fær 90 mínútur. Ég hef komið inn sem varamaður í síðustu þremur leikjum og væri auðvitað ekki að koma inn nema mér liði vel. Líkaminn er góður og ég hef ekkert fundið fyrir öxlinni síðan ég byrjaði aftur að æfa."
„Ég er klár í að byrja gegn Lettum en eins og alltaf ráða þjálfararnir þessu. Við sjáum bara hvað gerist."
Alfreð gekk í sumar í raðir Real Sociedad og segir fyrstu kynni af félaginu og spænska boltanum vera mjög jákvæð.
„Allt í kringum liðið er mjög fagmannlegt. Þetta er stór klúbbur á Spáni og allt stærra en ég bjóst við. Þetta hefur verið fínt."
Eftir því var tekið á fréttamannafundi um daginn hversu góð spænskukunnátta Alfreðs er. Kunni hann spænskuna fyrir eða er hann svona fljótur að pikka þetta upp?
„Ég kunni spænskuna ekki fyrir. Ég kunni ítölskuna og mörg orð eru svipuð en ég fór bara í tíma og ef maður ætlar sér að læra eitthvað þá er það ekkert mál."
Viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir