Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   sun 08. desember 2024 10:39
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Fékk áfall og átti erfitt með svefn eftir mistökin á Skaganum - „Þetta var skelfilegt“
Elías Ingi fékk áfall þegar hann sá að hann hafði gert stór mistök.
Elías Ingi fékk áfall þegar hann sá að hann hafði gert stór mistök.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þó áhuginn hafi dottið niður um tíma ætlar Elías að halda áfram í dómgæslunni.
Þó áhuginn hafi dottið niður um tíma ætlar Elías að halda áfram í dómgæslunni.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Elías var kallaður ýmsum ljótum nöfnum.
Elías var kallaður ýmsum ljótum nöfnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór hafði samband við Elías og þeir fóru yfir málin.
Jón Þór hafði samband við Elías og þeir fóru yfir málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eitt umtalaðasta atvik íslenska fótboltasumarsins gerðist í næst síðustu umferð Bestu deildarinnar. Staðan var 3-3 þegar ÍA skoraði gegn Víkingi í uppbótartíma. Elías Ingi Árnason dómari dæmdi markið ranglega af, strax á eftir fór Víkingur í sókn og skoraði sigurmarkið.

Þetta var risastór leikur en Evrópudraumar Skagamanna urðu að engu eftir þessi úrslit og Víkingur komst í bílstjórasætið í baráttunni við Breiðablik um titilinn. Það sauð allt upp úr á Akranesi.

„Þetta hafði áhrif á helvíti mikið," segir Elías í útvarpsþættinum Fótbolti.net þar sem hann tjáir sig í fyrsta sinn opinberlega um atvikið og viðurkennir fúslega að hann hafi gert stór mistök.

Hefði ekki verið villa í körfubolta
„Ákvörðunin að ég tek markið af er vegna þess að ég sé brot. Ég sé leikmann ÍA hlaupa inn í leikmann Víkings. Það leiðréttist ekkert í hausnum á mér fyrr en ég er kominn heim til mín og horfi á atvikið aftur í símanum mínum. Þá bara fæ ég áfall. Þetta var hræðilegur dómur og það sjá það allir sem horfa á upptökuna,"

„Ég er í eðlilegri stöðu miðað við dómara í leik og hvað er að gerast í leiknum en fæ hræðilegt sjónarhorn af því sem gerist inn í teignum og dæmi út frá því. Þetta hefði ekki einu sinni átt að vera villa í körfubolta," segir Elías Ingi.

Skil viðbrögðin
Eftir leik var mikill æsingur fyrir utan dómaraklefann þar sem leikmenn ÍA spörkuðu meðal annars í hurð klefans og Elías fékk fylgd út úr húsinu. Elías segist skilja gremju Skagamanna, þó það þurfi vitaskuld að vera ákveðin mörk.

„Þú þarft að fara ansi langt til að reyna að ráðast inn í klefa eða sparka eða kýla í hurðar. En ég skil viðbrögðin, það er verið að taka af þér fullkomlega löglegt mark. Og þetta er ekki mark á þriðju mínútu í þriðju umferð. Þetta er risastórt. Auðvitað skil ég það," segir Elías Ingi.

Náði ekki einbeitingu í vinnunni
Elías skoðaði atvikið ekki í klefanum en taldi sig þá enn hafa tekið rétta ákvörðun. En þegar hann kom heim og skoðaði upptöku þá kom stór skellur.

„Þetta er gríðarlegt högg. Mitt markmið þegar ég fer inn á fótboltavöllinn er að reyna að vera á pari við leikmenn eða betri. Ég vil vera frábær þegar ég er inni á velli. Það gekk oft vel í sumar. En þetta atvik er náttúrulega bara skelfilegt."

„Eins og ég segi, þegar ég kem heim og horfi á þetta þarf ég bara að sjá þetta einu sinni og sé að þetta er ömurlegur dómur. Þá kemur bara sjokk. Það varði í töluverðan tíma. Það var erfitt að sofa, ég einbeitti mér ekkert í vinnunni í næstu daga. Þetta vill enginn. Þú vilt gera vel og vera ekkert í umræðunni. Við værum náttúrulega ekki að ræða þetta ef það væri VAR," segir Elías.

Ógeð, aumingi og trúður
Hann skoðaði ekki umræðuna á samfélagsmiðlum en hún fór þó ekki framhjá honum.

„Ég er mikill íþróttaáhugamaður, mikill fótboltaaðdáandi og fer inn á Fótbolti.net mörgum sinnum á dag. Þar komst ég ekki hjá því að lesa ýmislegt. Svo voru sendi skilaboð til mín, sem á ekki að vera hluti af þessu. Töluverður fjöldi aðila átti eitthvað vantalað við mig, fólk sem ég þekki ekki neitt. Þetta voru ekki hótanir. Ógeð og aumingi og trúður og allt þar fram eftir götunum."

Elías segir að einhverjir aðilar hafi beðið sig afsökunar og þá hafi hann og Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, spjallað saman nokkrum vikum eftir atvikið.

„Ég átti mjög gott samtal við Jón Þór, þjálfara ÍA, þar sem hann hefur samband og við spjölluðum saman í langan tíma. Eins og allir vita sem hafa starfað í kringum fótbolta er hann þvílíkur toppmaður. Við fórum vel í gegnum sviðið."

Elías hafði engan áhuga á að starfa í lokaumferðinni eftir þetta atvik og hann segir að áhuginn á dómarastarfinu hafi dottið niður. Hann veit þó að áhuginn kemur aftur og ætlar að halda áfram í dómgæslunni. Hann viðurkennir að það hafi skotist upp í kollinn á honum að hætta þessu.

„Það datt alveg inn en það var alveg fljótt út aftur. Maður getur ekki látið eitt atriði stjórna framtíðinni á þennan hátt," segir Elías sem hafði átt mjög gott sumar í dómgæslunni áður en kom að látunum á Skaganum.
Útvarpsþátturinn - Stjörnumaðurinn Andri og Elías um brjálæðið á Skaganum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner