Amad semur við Man Utd - Mbeumo á óskalista Arsenal - Ipswich er að kaupa Philogene
   fim 09. janúar 2025 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sá leikjahæsti kveður stoltur og þakklátur - „Áhuginn og leikgleðin voru alveg enn til staðar"
Lék sinn fyrsta leik 2008 og sinn síðasta í september 2024.
Lék sinn fyrsta leik 2008 og sinn síðasta í september 2024.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gummi Kalli og Doddi Hjaltalín léttir.
Gummi Kalli og Doddi Hjaltalín léttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með FH tímabilið 2017.
Í leik með FH tímabilið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Skoraði 61 mark í 438 KSÍ leikjum.
Skoraði 61 mark í 438 KSÍ leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik á Extra vellinum.
Í leik á Extra vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skot sumarið 2010 sem endaði með marki.
Skot sumarið 2010 sem endaði með marki.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
2008 með Fjölni.
2008 með Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
Gummi Kalli og Viðar Ari fagna marki.
Gummi Kalli og Viðar Ari fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blessaður, hvað segiru með FyssiKalli?
Blessaður, hvað segiru með FyssiKalli?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Með miklu stolti mun ég kalla mig Fjölnismann það sem eftir er. Takk kærlega fyrir mig," sagði Guðmundur Karl Guðmundsson, Gummi Kalli, í október þegar hann lagði skóna á hilluna.

Gummi Kalli er leikjahæsti leikmaður í sögu Fjölnis, en hann lék með liðinu allan sinn feril ef frá er talið eitt tímabil.

Gummi Kalli er 33 ára miðjumaður sem bara fyrirliðabandið hjá Fjölni síðasta sumar. Fótbolti.net ræddi við Gumma Kalla um ferilinn og þá ákvörðun að hætta.

„Hugmyndin um að leggja skónum hefur alveg komið upp síðustu ár en ég aldrei látið verða af því að hætta fyrr en núna. Það má samt alveg segja að þetta var ekki auðveld ákvörðun þar sem áhuginn og leikgleðin var alveg enn til staðar. Ákvörðunin var meira tekin út frá öðrum þáttum eins og tímanum sem maður er frá fjölskyldunni sem dæmi. Ég er búsettur í Þorlákshöfn þannig æfingar taka svolítið lengri tíma en ella út af akstri fram og til baka. Ég á unnustu og tvö börn, 5 ára strák og 7 mánaða gamla stelpu sem verður mjög gaman að geta varið meira tíma með í kjölfarið af þessari ákvörðun," segir Gummi Kalli.

Eignaðist endalaust af vinum
Hvernig gerirðu upp tíma þinn hjá félaginu?

„Tími minn hjá Fjölni hefur verið langur og á heildina litið mjög góður. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt í eiginlega alla staði. Auðvitað hafa komið tímar þar sem ekki hefur gengið nægilega vel inná vellinum en á sama tíma lítur maður bara á slíkt sem áskorun sem er bara skemmtilegt að takast á við. Það sem maður þakkar samt mest fyrir eftir allan þennan tíma er að hjá félaginu hef ég kynnst endalaust mikið af fólki sem maður getur kallað vini sína hvort sem það sé fólk í kringum félagið, þjálfara eða leikmenn auðvitað."

Frá Þorlákshöfn í Grafarvog
Gummi Kalli kom til Fjölnis árið 2006 frá Ægi. Af hverju varð Fjölnir fyrir valinu á sínum tíma?

„Ég er fæddur og uppalinn í Þorlákshöfn og hef búið þar mestmegnis ef undanskilin eru nokkur ár. Til að gera langa sögu stutta varðandi skiptin yfir til Fjölnis þá var það þannig að þjálfari sem þjálfaði mig í Ægi var að flytja í bæinn og fór að þjálfa hjá Fjölni og í raun bauð mér að koma í kjölfarið og prófa æfingu hjá Fjölni. Á þeim tíma voru æfingar hjá Ægi fámennar og það lá frekar beint við að skipta yfir ef ég ætlaði mér eitthvað lengra í boltanum."

Kaflaskipt en mjög skemmtilegt tímabil með FH
Eins og kom fram í innganginum spilaði Gummi Kalli með Fjölni allan sinn feril ef frá er talið eitt tímabil. Hann söðlaði um og samdi við FH fyrir tímabilið 2017. Hann var spurður út í þau skipti.

„Eftir tímabilið 2016 hjá Fjölni var ég að verða samningslaus. Fjölnir vildi halda mér og fleiri félög höfðu samband og sýndu áhuga. FH var eitt af þessum félögum og ég var virkilega spenntur um leið og FHingar komu að borðinu og ákvað að semja við þá. Heimir Guðjóns var að þjálfa og Óli Palli aðstoðaði hann."

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt en á sama tíma krefjandi að koma inn í jafn öflugan hóp og FH liðið hafði á þessum tíma. Tímabilið 2017 var svolítið sérstakt þar sem árangurinn í deildinni var 3. sætið og svolítið frá titlinum. Við fórum í bikarúrslit þar sem við töpuðum á móti ÍBV. En það gekk mjög vel í Evrópu þar sem við vorum hársbreidd frá því að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þannig tímabilið var kannski kaflaskipt en mjög skemmtilegt og Evrópuleikirnir standa þar uppúr."


Elti þjálfarann og fór aftur í Fjölni
Eftir tímabilið eitt tímabil í Hafnarfirði hélt Gummi Kalli aftur í Grafarvoginn.

„Eftir tímabilið 2017 var Heimir Guðjóns látinn fara frá FH og Óli Kristjáns tók við liðinu. Það kom alveg til greina að vera áfram í FH en á þessum tíma voru miklar breytingar í gangi hjá FH, bæði þjálfarabreytingar og leikmannabreytingar. Óli Palli tók við Fjölnisliðinu þarna og lagði Fjölnir bara fínt tilboð fram í okkur Begga Ólafs. Ég persónulega hafði alveg hug á að vera áfram í FH enda bara búinn að vera eitt tímabil hjá liðinu en Óli Palli sótti mikið í að fá mig og nýr þjálfari í brúnni hjá FH gerði það að verkum að ég ákvað að fara aftur heim."

Var meira spennandi að elta Óla Palla?

„Óli Palli sótti mikið í að fá mig yfir og sá mig fyrir sér í mjög stóru og mikilvægu hlutverki hjá Fjölni á meðan það var kannski aðeins meiri óvissa með komu Óla Kristjáns í FH. Hann var í leit að sínum leikmannahópi og hefði ég mögulega verið í minna hlutverki hjá FH."

Framtíðin björt í Grafarvoginum
Hvernig horfa síðustu ár ferilsins við Gumma Kalla við honum og hvernig metur hann stöðuna á Fjölni í dag?

„Síðustu ár hafa verið upp og ofan getum við sagt. Félagið er búið að vera nálægt því að komast aftur upp í efstu deild þar sem ég tel það eiga að vera. Það er mikið af ungum strákum að koma upp og framtíðin björt í Grafarvoginum þannig ég hugsa það sé stutt í að við sjáum Fjölni aftur í efstu deild."

Allt kom fyrir ekki
Fjölnir og fyrirliðinn byrjuðu tímabilið 2024 mjög vel og var hann reglulega í liði umferðarinnar. Það fjaraði undan seinni hluta móts hjá liðinu, gekk ekkert að vinna sigra og eftir að hafa verið í dauðafæri á að fara beint upp úr Lengjudeildinni varð vonin um sæti í Bestu að engu eftir tap gegn Aftureldingu í undanúrslitum umspilsins.

„Ég var bara þokkalega sáttur við mína frammistöðu á tímabilinu. Ég spilaði að ég tel nokkuð solid mót heilt yfir. Við byrjuðum tímabilið mjög vel og fyrri hluti þess var auðvitað mjög góður þar sem við vorum að sækja mörg stig og kreista út sigra úr leikjum sem hefðu kannski átt að fara jafntefli. Það var mikil seigla og kraftur í liðinu."

„Svo kemur kaflinn sem fer með mótið okkar í raun og veru. Kafli sem við náum bara ekki að sækja úrslit, skorum lítið og lekum mörkum á móti sem er hræðileg formúla í fótbolta. Við fengum í raun fáránlega marga sénsa til að klára bara þessa deild sannfærandi með engu stressi en allt kom fyrir ekki og við endum á að þurfa að fara í umspilið þar sem við mætum liði sem byrjaði mótið illa og var á mikilli uppleið seinni hluta móts. Við héldum svolítið áfram á sömu braut og leikina á undan og náðum ekki að troða boltanum yfir línuna og vorum að leka mörkum."

„Afturelding spilaði í heildina litið betur en við í þessum umspilsleikjum og átti skilið að fara áfram og á endanum upp."


Þakklátur og mjög stoltur að vera sá leikjahæsti
Ertu stoltur að vera leikjahæsti leikmaður Fjölnis frá upphafi?

„Ég er mjög stoltur af því að vera leikjahæstur í sögu Fjölnis. Það eru auðvitað bara forréttindi að fá að spila leikinn sem maður elskar í þetta langan tíma. Ég slapp nánast algjörlega með meiðsli á ferlinum og þakka mikið fyrir það."

2013 og '16 standa upp úr
Hvaða tímabil standa upp úr?

„Öll þessi ár hafa verið frábær, hvert á sinn hátt. Tímabilið 2013 með Fjölni var hrikalega skemmtilegt. Við unnum 1. deildina í lokaumferðinni og fórum upp. Geggjað sumar með mjög skemmtilegum leikmannahóp. Tímabilið 2016 með Fjölni var líka mjög skemmtilegt þar sem við spiluðum mjög vel það sumar og enduðum í 4. sæti. Við vorum lengi vel að daðra við toppinn og Evrópusætin og rétt misstum af Evrópu undir lokin."

Kann ágætlega við gælunafnið
Þá er komið að nokkrum bónusspurningum. Sú fyrsta var út í gælunafn Gumma Kalla, Fyssi eða Fyssi Kalli. Undirritaður hefur reglulega heyrt Gumma Kalla vera kallaðan Fyssa. Hvaða kemur það?

„Fyssa nafnið er búið að vera mjög lengi. Gústi Gylfa talaði töluvert um það á sínum tíma að við þyrftum að vera 'physical' inná vellinum í návígum og öðru. Gummi Bö sem spilaði með okkur á þessum tíma yfirfærði þetta síðan á mig sem PhysiKalli sem styttist síðan í Fyssi á endanum. Ég hef bara tekið þessu vel og kann ágætlega við þetta gælunafn."

Hefur 'Fyssi' farið út fyrir fótboltann?

„Þetta gælunafn hefur farið út um allt eiginlega. Ég er kallaður Fyssi mjög mikið í kringum fótboltann en svo einnig bara af vinum og vandamönnum sem hafa ekkert með fótbolta að gera. Það er eiginlega magnað hvað þetta hefur haldist vel en ég kann ágætlega við það."

Á öðru getustigi
Næsta bónusspurning er hver sé sá besti sem Gummi Kalli spilaði með á ferlinum. Hann nefnir fjóra leikmenn, tvo Fjölnismenn og tvo FHinga.

„Ég er búinn að spila með fáránlega mörgum frábærum leikmönnum í gegnum tíðina. Gunni Már, Herra Fjölnir, var ótrúlegur leikmaður á sínum tíma. Aron Jó var sturlaður með Fjölni áður en hann fór út í atvinnumennsku. Davíð Þór Viðars með allan sinn þokka og gæði og svo má ekki gleyma töframanninum Atli Guðna sem hafði gæði og leikskilning á einhverju öðru leveli en aðrir. Svo spilaði maður nú oft með ansi góðum atvinnumönnum og öðrum íslenskum leikmönnum sem fá því miður ekki shoutout hér."

Landsliðsmaður í Futsal
Þá er það lokaspurningin. Snemma á meistaraflokksferlinum var Gummi Kalli í landsliðinu í Futsal, innanhússfótbolta. Hvernig var að vera í landsliðinu í Futsal?

„Það var geggjað að vera partur af landsliðinu í Futsal. Þetta var á þeim tíma sem Futsal var frekar nýtt á Íslandi og við Fjölnismenn tókum alltaf þátt. Við lönduðum Íslandsmeistaratitlinum í nokkur skipti á þessum tíma. Þetta eina ár sem Futsal landsliðið var starfrækt voru nokkur lið að taka þátt í Futsal. Fjölnir, ÍBV, Keflavík og Víkingur Ó áttu að mig minnir flesta leikmennina og Big Willum að þjálfa," segir Gummi Kalli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner