„Mér fannst við vera með yfirburði," sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, eftir 1-0 sigur á West Ham í framlengdum leik í enska bikarnum í kvöld.
Scott McTominay skoraði sigurmarkið í framlengingunni og Man Utd er því komið í 8-liða úrslit. Heilt yfir var þetta mjög slakur fótboltaleikur.
„Við stjórnuðum leiknum algjörlega í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleiknum var þetta aðeins meiri leikur. Þegar við erum einu marki yfir og við erum ekki að nýta færin, þá getur allt gerst eins og við sáum gegn Everton. Þetta snýst um að klára leikinn og við erum komnir áfram. Við verðum í pottinum og það er það sem við vildum," sagði Norðmaðurinn.
„Við áttum held ég 15 til 17 marktilraunir og við verðum að nýta færin betur. Við áttum að klára leikinn á fyrstu 90 mínútunum en stundum gerist það ekki."
„Við þurftum á góðum úrslitum að halda vegna þess að andinn var ekki góður eftir Everton leikinn. Það var erfitt að sætta sig við það en í dag vorum við einbeittir og kláruðum verkefnið."
„Þú vilt vinna alla leiki og við viljum komast í úrslitaleikinn. Þess vegna erum við hér hjá Manchester United. Stundum ertu heppinn með drátt í bikarnum - við höfum ekki verið það heppnir - en við erum komnir einu skrefi nær úrslitaleiknum."
Athugasemdir