Arne Slot þjálfari Liverpool svaraði spurningum eftir markalaust jafntefli Englandsmeistaranna á heimavelli gegn nýliðum Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Leikmenn Liverpool virkuðu bitlausir í sóknarleiknum. Þeir voru talsvert sterkara liðið á vellinum en áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér góð marktækifæri.
„Við vildum byrja árið á sigri en þetta var erfiður leikur í dag, við áttum erfitt með að komast í gegnum lágu varnarblokkina þeirra. Í þau skipti sem við komumst í gegn þá vantaði okkur ýmist fleiri leikmenn í vítateignum eða vorum óheppnir," sagði Slot.
„Það eru tvær megin leiðir til að sigrast á lágri blokk, önnur leiðin er hraði þegar manni tekst að skapa einn-á-einn aðstæður og hin leiðin eru föst leikatriði. Við komumst nálægt því að skora úr föstu leikatriði með Virgil (van Dijk) og nokkrum sinnum í gegnum Jeremie (Frimpong) þegar hann komst einn á einn úti á kanti."
Leikmenn Liverpool vildu fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik eftir samskipti Jaka Bijol við Hugo Ekitike. Bijol ríghélt í Ekitike, en framherjanum tókst að standa í lappirnar og skila boltanum á liðsfélaga.
01.01.2026 19:52
Átti Liverpool að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik?
„Fólk ætti ekki að vera hissa þegar það sér leikmenn úr mínu liði standa í lappirnar. Þetta gerðist líka gegn West Ham þegar Lucas Paquetá átti að fá seinna gula spjaldið sitt, en leikmaðurinn minn stóð í lappirnar svo það var ekki spjaldað. Við erum lið sem stendur í lappirnar en því miður þá virðist það ekki vera mikils virði í fótboltaheiminum í dag.
„Ef Hugo (Ekitike) fer niður þarna þá er þetta líklega vítaspyrna og rautt spjald. Það hefði gefið okkur meiri sigurlíkur.
„Í seinni hálfleiknum sá ég leikmenn Leeds henda sér í jörðina og spurningin er: Ættum við að breyta okkar hegðun eða ekki? Ég tel að við ættum ekki að breytast."
Liverpool er í fjórða sæti deildarinnar með 33 stig eftir 19 umferðir.
Athugasemdir






