banner
   mán 09. maí 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Kraftaverk í Bristol - Þurftu að vinna með sjö mörkum og gerðu það
Leikmenn Bristol Rovers fögnuðu vel inn í klefa
Leikmenn Bristol Rovers fögnuðu vel inn í klefa
Mynd: Getty Images
Aaron Collins í búningnum á umferðarljósinu
Aaron Collins í búningnum á umferðarljósinu
Mynd: Twitter
Ótrúlegir hlutir gerðust í lokaumferð ensku D-deildarinnar um helgina en Bristol Rovers þurfti á kraftaverki að halda til að komast upp um deild.

Fyrir lokaumferðina var Bristol Rovers með 77 stig, jafnmörg og Northampton Town. Málið var bara það að Northampton var með fimm plús í markatölu á Bristol og virtist því ómögulegt fyrir Bristol að koma sér upp.

Bristol hafði betur innbyrðis og þurfti því kraftaverk í lokaumferðinni en útlitið var ekkert sérstakt eftir að Northampton komst í 3-0 gegn Barrow á 22 mínútum. Staðan þar í hálfleik var 3-1 og urðu mörkin ekki fleiri í leiknum.

Það þýddi aðeins eitt að Bristol Rovers þurfti að vinna með sjö mörkum.

Bristol var 2-0 yfir gegn Scunthorpe United í hálfleik en í þeim síðari fóru menn að trúa á verkefnið. Þriðja markið kom á 53. mínútu og fjórða aðeins átta mínútum síðar.

Anthony Evans skoraði svo fimmta markið á 76. mínútu og þremur mínútum eftir það gerði Aaron Collins annað mark sitt í leiknum og sjötta mark Bristol. Það ætlaði svo allt um koll að keyra á 85. mínútu er hinn 19 ára gamli Elliott Anderson tróð inn sjöunda markinu.

Þetta þýddi að Bristol væri á leið í ensku C-deildina. En dramatíkin var ekki búin því stuðningsmenn félagsins hljópu inn á völlinn með blys og voru byrjaðir að fagna. Það tók sinn tíma að koma þeim af vellinum og einhverjum fimmtán mínútum síðar fór leikurinn aftur af stað.

Uppbótartíminn var eitthvað í kringum tuttugu mínútur og þegar var flautað var til leiksloka gengu stuðningsmenn af göflunum.

Joey Barton er stjóri Bristol Rovers og hefur náð frábærum árangri með liðið. Hann tók við Rovers í febrúar á síðasta ári en tókst ekki að bjarga því frá falli en í staðinn fór hann beint aftur upp með liðið.

Leikmenn voru ansi skrautlegir síðar um kvöldið en Aaron Collins, leikmaður Rovers, sást á umferðarljósi hellandi bjór yfir sig allan og enn í búningnum. Fagnaðarlætin má sjá hér fyrir neðan.




Athugasemdir
banner
banner