Mikilvægur leikur við Grikkland á morgun
„Mér fannst þetta sterkt stig. Við erum enn inni í keppninni," sagði Jóhannes Kristinn Bjarnason, leikmaður U19 landslið Íslands, fyrir æfingu í dag. Hann var þar að tala um síðasta leik liðsins gegn Noregi sem endaði með 1-1 jafntefli.
Strákarnir spiluðu vel gegn Noregi og náðu að landa stigi þar sem Eggert Aron Guðmundsson skoraði stórglæsilegt mark á lokamínútunum.
Strákarnir spiluðu vel gegn Noregi og náðu að landa stigi þar sem Eggert Aron Guðmundsson skoraði stórglæsilegt mark á lokamínútunum.
„Við spilum mjög vel og erum óheppnir með færin okkar, eigum að nýta þau betur. Við liggjum á þeim í endann og fáum svo mjög flott mark frá Eggerti. Við áttum allavega eitt stig skilið, ef ekki meira," sagði Jóhannes.
Markið heldur Íslandi á lífi í keppninni en á morgun spila strákarnir við Grikkland í leik sem þeir þurfa að vinna til að eiga möguleika á að fara áfram. Í gær fengu strákarnir frí til að hitta fjölskyldu sína.
„Það var mjög gott. Ég kíkti á fjölskylduna og það var fínt að fá að hvíla sig aðeins," sagði Jói en faðir hans er fyrrum landsliðsmaðurinn Bjarni Guðjónsson. Bjarni er mættur út til Möltu að styðja liðið og son sinn. „Við töluðum eiginlega ekkert um fótbolta í gær, vorum bara að slaka á og gera ekki neitt. Það var mikilvægt að hvíla sig aðeins og gera okkur tilbúna fyrir Grikkina."
Alltaf sama hugarfarið inn í alla leiki
Möguleikarnir á sigri á morgun eru góðir en Grikkirnar hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa.
„Ég fer alltaf inn í alla leiki og hef trú á því að ég geti unnið hann. Það er hugarfarið. Það væri mjög gott að komast í undanúrslit og fyrir okkur þá þurfum við að einbeita okkur að okkur sjálfum. Við þurfum að vinna okkar leik," sagði fjölhæfi miðjumaðurinn en það hefur verið skemmtilegt að taka þátt í stórmóti með þessu öfluga liði. Lífið innan sem utan vallar er skemmtilegt og það er góð stemning í hópnum.
„Þetta er heiður. Það er ótrúlega gaman að hitta strákana aftur og vera með þeim allan daginn. Ég hef til dæmis verið að skóla þá í FIFA á hótelinu. Það er fáránlegt hvað ég er góður í FIFA. Ég á að vera heimsmeistari í FIFA, þú getur spurt þá. Ég gjörsamlega skóla þá," sagði KR-ingurinn léttur að lokum en hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir