Víkingar tóku á móti Shamrock Rovers í 1.umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Víkingar byrjuðu einvígið á heimavelli og þrátt fyrir að liggja svolítið á gestunum vildi markið ekki láta sjá sig.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 - 0 Shamrock Rovers
„Blendnar tilfiningar. Þetta var virkilega góð frammistaða en okkur tókst ekki að skora. " Sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir leikinn í kvöld.
„Ég veit ekki hvað við fengum margar hornspyrnur og hvað við vorum mikið með boltann og þess háttar en það var svolítið langt á milli færa hjá okkur. Við náðum aldrei að skelfa þá nógu mikið nægilega oft þannig þeir fóru snemma í skotgrafirnar sem að er mjög ólíkt þeirra DNA sem sýndi bara hvað þeir báru mikla virðingu fyrir okkur."
Víkingar fengu þó nokkrar hornspyrnur í leiknum og var svekkjandi að sjá Víkinga ekki nýta sér þær nægilega vel.
„Já það voru allavega í minningunni 2-3 góð færi sem komu upp úr því þannig já það voru góðar spyrnur en þeir bara vörðust vel. Kredit á þá. Þeir bara vörðust virkileg vel í þessum leik og hlupu mikið."
Arnar átti áhugaverðar skiptingar í leiknum í dag og tók meðal annars Pablo Punyed af velli þegar liðið var að reyna sækja mark og reyna þræða boltanum á milli línana.
„Þetta er bara að fá ferskar lappir inn á. Reyna að halda orkustiginu gangandi. Það var ástæðan fyrir þessum skiptingum. Það hefur gengið ansi vel með skiptingarnar hingað til fyrstu 3-4 ár þannig þetta er bara til að fá öðruvísi prófíla í allar stöður. Öðruvísi leikmenn 1v1, öðruvísi leikmenn í hálfsvæði og öðruvísi leikmenn til að fylla boxið og bara reyna hreyfa við einhverju því að við vorum búnir að reyna að henda öllu á þá og eldhúsvaskinum með þannig afhverju ekki að reyna eitthvað nýtt?"
Nánar er rætt við Arnar Gunnlaugsson í spilaranum hér fyrir ofan.