Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 09. september 2020 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spáin fyrir enska - 5. sæti
Arsenal
Mynd: Getty Images
Fyrsti titilll Arteta.
Fyrsti titilll Arteta.
Mynd: Getty Images
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Matteo Guendouzi og Mesut Özil eru enn hjá Arsenal.
Matteo Guendouzi og Mesut Özil eru enn hjá Arsenal.
Mynd: Getty Images
William Saliba.
William Saliba.
Mynd: Arsenal
Það kom smá á óvart að Willian færði sig um set í London.
Það kom smá á óvart að Willian færði sig um set í London.
Mynd: Arsenal
Kieran Tierney var mikið meiddur á síðasta tímabili.
Kieran Tierney var mikið meiddur á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 5. sæti er Arsenal.

Um liðið: Arsenal endaði frekar dapra leiktíð með því að lyfta enska bikartitlinum fyrir rúmum mánuði síðan. Arsenal var félag sem endaði alltaf í Meistaradeildarsæti en sú hefur ekki verið raunin undanfarin ár. Arsenal er staðsett í London og varð síðast Englandsmeistari vorið 2004.

Staða á síðasta tímabili: 8. sæti og enskur bikarmeistari.

Stjórinn: Mikel Arteta tók við af Freddie Ljungberg í desember í fyrra eftir að Unai Emery hafði byrjað sem stjóri félagsins. Arteta er fyrrum fyrirliði Arsenal og lærði svo sitt fag sem aðstoðarmaður Pep Guardiola hjá Manchester City. Arteta stýrði liðinu til bikarmeistaratitils og svo vanns Samfélagsskjöldurinn á dögunum. Trúin á verkefni Arteta er talsvert meiri en trúin á verkefni Emery var.

Styrkleikar: Trú og betri sýn á hlutina er það sem hefur fylgt með komu Arteta. Í fyrsta sinn í nokkurn tíma eru allir hjá Arsenal um borð í verkefni liðsins sem er að komast aftur á stall þeirra bestu í Evrópu. Framlína liðsins er sterk og ef að Nicolas Pepe nær að blómstra þá þurfa liðin fyrir ofan að vara sig. Arteta er ekkert að sykurhúða hlutina og er að reyna vinsa út þá leikmenn sem eru ekki með í verkefninu eða ekki nægilega góðir, stjórinn er að smíða sinn eigin hóp.

Veikleikar: Miðsvæðið. Í einhver ár hefur verið horft á hóp Arsenal og bent á að miðjan er ekki nægilega sterk. Granit Xhaka og Mohamed Elneny byrjuðu gegn Arsenal í Samfélagsskildinum og er það ekkert sem fær stuðningsmenn til að hoppa hæð sína. Félagið er í fjárhagsörðugleikum og þarf að komast í Meistaradeildina til að laga bókhaldið - spurning hvort sú pressa sé eitthvað sem liðið þolir.

Talan: 1. Fyrsta heila tímabilið undir stjórn Arteta, einn bikartitill kominn í hús og hvort verður treyja númer eitt - þegar hann er orðinn heill, Bernd Leno, í markinu eða Emiliano Martinez?

Lykilmaður: Pierre-Emerick Aubameyang
Besti framherji deildarinnar og fyrirliði Arsenal. Auba er markavél sem flest allt snýst um fram á við hjá Skyttunum. Hann er að fara inn á sitt síðasta ára á samningi og hefur Arsenal veturinn til að sannfæra Gabon-manninn um að vera áfram. 22 mörk í 36 deildarleikjum (27 mörk í öllum keppnum) á síðustu leiktíð.

Fylgstu með: William Saliba
Þessi 19 ára miðvörður var keyptur síðasta sumar frá St. Etienne en var að láni hjá franska félaginu á síðustu leiktíð. Saliba er mikið efni og voru einhverjir stuðningsmenn Arsenal svekktir að félagið lét ekki á hann reyna í úrvalsdeildinni síðasta vetur. Rúmir 190 cm sem pabbi Kylian Mbappe þjálfaði á sínum tíma. Saliba verður í treyju númer fjögur í vetur.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Það er lykilatriði fyrir stuðningsmenn Arsenal að fara ekki fram úr sér þrátt fyrir tvo bikara með skömmu millibili. Mikel Arteta reiknaði væntanlega ekki sjálfur með þeim svona skömmu eftir að taka við stjórnartaumunum hjá félaginu. Það er þó alveg ljóst að það er hellingur spunninn í Arteta sem virðist vera ansi góður að fá menn með sér í lið og hann var fljótur að koma inn meiri sigurhugsun í liðið og hreinsa til eins og hann gat. Hann á þó enn eftir að móta hópinn frekar eftir sínu höfði og situr enn á uppi með vandræðagemsana Özil og Guendouzi. Spennandi varnarmaður er mættur frá Lille til að styrkja stoðirnar í vörninni og þá voru samningar við Marí og Cedric geirnegldir. Það er alveg ástæða fyrir Skyttur um gervalla veröld að vera spenntar en barátta um Meistaradeildarsæti er kannski til aðeins of mikils ætlast.”

Komnir:
Willian frá Chelsea - Frítt
Pablo Marí frá Flamengo - 14 milljónir
Cédric Soares frá Southampton - Frítt
Gabriel Maglahaes frá Lille - 27 milljónir
Dani Ceballos frá Real Madeid - Áfram á láni

Farnir:
Dinos Mavropanos til Stuttgart - Lán
Henrikh Mkhitaryan til Roma - Frítt
Sam Greenwood til Leeds - Óuppgefið

Fyrstu leikir: Fulham (Ú), West Ham (H) og Liverpool (Ú).

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Arsenal, 192 stig
6. Tottenham, 182 stig
7. Leicester, 161 stig
8. Wolves, 160 stig
9. Everton, 146 stig
10. Southampton, 113 stig
11. Sheffield United, 101 stig
12. Burnley, 99 stig
13. Leeds, 95 stig
14. West Ham, 93 stig
15. Crystal Palace, 80 stig
16. Newcastle, 76 stig
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner
banner