Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 09. október 2020 11:50
Magnús Már Einarsson
Veiran truflar - „Þjöppum okkur saman í kreppum og krísum"
Icelandair
Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari.
Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kórónuveirufaraldurinn á Íslandi hefur áhrif á undirbúning íslenska landsliðsins fyrir stórleikinn gegn Svíum í undankeppni EM þann 27. október næstkomandi.

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari, tilkynnti í dag hópinn fyrir þennan leik.

Margir leikmenn í hópnum spila í Pepsi Max-deildinni en þar hefur keppni verið frestað vegna kórónuveirunnar. Ljóst er að það mun trufla undirbúninginn fyrir leikinn gegn Svíum en leikmenn úr Pepsi Max-deildini spila væntanlega enga leiki áður en kemur að leiknum gegn Svíum.

„Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af því. Það er skelfilegt ástand sem gerir okkur erfitt fyrir í undirbúningi þessa leiks," sagði Jón Þór við Fótbolta.net í dag.

„Á móti kemur er að við höfum reynslu af þessu frá því í vor. Liðin gerðu vel í að þjálfa sína leikmenn. Við erum með tæki og tól til að fylgjast með æfingum leikmanna í félögunum. Það er jákvætt að þessi þekking skuli vera í félögunum og þessi reynsla frá því í vor. Við þurfum að vera í góðu samráði við félög leikmanna sem eru í okkar hóp og bregðast við ástandinu."

„Það er annar kostur sem við Íslendingar höfum, við getum brugðist við erfiðum aðstæðum og þjappað okkur saman í kreppum og krísum. Það hefur alltaf verið í DNA hjá okkur Íslendingum. Það er í hugarfari okkra Íslendinga að berjast og standa saman. Það er styrkleiki sem við höfum."


Stefna á að æfa á Íslandi fyrir leik
Leikurinn í Svíþjóð fer fram þriðjudaginn 27. október en óljóst er hvernig undirbúningurinn verður fyrir hann.

„Hlutirnir breytast dag frá degi og viku frá viku. Það er erfitt að skipuleggja langt fram í tímann. Eins og staðan er núna þá erum við að endurskipuleggja okkur. Það er erfitt að segja nákvæmlega hvernig þetta verður en það er ljóst að við tökum hópinn saman hérna heima á einhverjum tímapunkti og æfum með þá leikmenn sem spila heima."

„Við köllum leikmenn sem spila erlendis ekki heim. Það er flækjustig og óþarfa ferðalög sem fylgja því. Þeir leikmenn mæta ferskir til Gautaborgar. Við erum með stóran hóp hérna heima og munum æfa. Dagsetningin þar er óljós. Hún fer eftir ástandinu hérna heima og hvað við megum og getum. Þau mál eru öll í endurskoðun."

Athugasemdir
banner
banner
banner