Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mán 09. nóvember 2020 14:49
Elvar Geir Magnússon
Arnór Ingvi: Hef eiginlega verið farþegi
Arnór Ingvi í leik með Malmö.
Arnór Ingvi í leik með Malmö.
Mynd: Getty Images
Arnór Ingvi á landsliðsæfingu.
Arnór Ingvi á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason segir það ekkert leyndarmál að hann sé að líta í kringum sig og gæti yfirgefið sænska félagið Malmö.

Hann varð um helgina Svíþjóðarmeistari með liðinu annað árið í röð en var þó í mun minna hlutverki en tímabilið á undan.

„Tilfinningin að vinna titilinn er góð en þetta er samt sérstakt. Enginn fögnuður eða neitt þannig. Það er gaman að hafa unnið þennan titil en árið hefur verið skrítið," segir Arnór við Fótbolta.net.

„Ég hef ekki verið í stóru hlutverki. Ég hef eiginlega verið farþegi og ekki fengið að spila eins mikið og mér finnst ég eiga skilið og ég vil. Það er frábært að vinna titilinn en maður hefði viljað koma meira við sögu. En það er gaman að vinna þennan titil í annað sinn."

Arnór er ekki með skýringu á því af hverju hann hefur ekki fengið fleiri mínútur og mögulegt er að hann færi sig um set.

„Ég á eitt ár eftir af samningnum mínum hérna. En ég fer ekkert leynt með það að ég er farinn að líta í kringum mig. Í fyrra var ég lykilmaður en er það ekki núna. Maður horfir í kringum sig og sér hvað er í boði," segir Arnór en hann veit af því að félög eru með augastað á sér.

„Það er alltaf eitthvað. Maður skoðar bara hvað er í boði en það er erfiðara á þessum tíma að vera að færa sig um set. Ég bara bíð og sé hvað gerist, það er ekkert annað sem hægt er á þessu blessaða ári."

Arnór Ingvi verður ekki með íslenska landsliðinu í komandi leik gegn Ungverjalandi þar sem smit kom upp í leikmannahópi Malmö.

Sjá einnig:
Arnór Ingvi hundfúll en segir ákvörðunina rétta
Athugasemdir
banner
banner
banner