Kylian Mbappe, leikmaður Real Madrid og franska landsliðsins, segir að Didier Deschamps hafi sleppt því að velja hann í landsliðið fyrir leikina í nóvember.
Þannig er mál með vexti að Mbappe hafði beðið Deschamps um frí frá landsliðinu í október. Framherjinn var að glíma við smávægileg meiðsli og vildi ná endurheimt.
Frakkinn var gagnrýndur fyrir að mæta ekki á leik Frakklands og Ísraels í Þjóðadeildinni, en hann fór í staðinn til Stokkhólms, sem hefur fengið talsverða umræðu vegna atviks sem átti sér stað á hótelinu sem hann gisti á.
„Fyrir mér er ekkert mikilvægara en að spila fyrir landsliðið. Ég bað Deschamps um að velja mig ekki í hópinn því ég var ný kominn til Real Madrid og var ekki 100 prósent klár. Ég hafði varla tekið mér frí,“ sagði Mbappe við CanalTV.
Mánuði síðar valdi Deschamps hóp sinn fyrir síðustu leiki ársins en aftur var Mbappe utan hóps. Leikmaðurinn má hins vegar ekki ræða það, en fullyrðir að það hafi ekki verið ákvörðun hans.
„Hver er ástæðan fyrir því að ég var ekki valinn í nóvember? Það var ákvörðun þjálfarans. Ég get ekki sagt þér af hverju, en ef hann vil segja frá því þá má hann gera það. Ég má alla vega ekki tala um það.“
„Ég vildi spila í nóvember en þjálfarinn ákvað að velja mig ekki og ég virði það,“ sagði Mbappe.
Svo virðist vera sem að það sé einhver kergja á milli Mbappe og þjálfarans en það er vonandi fyrir landsliðið að það verði leyst fyrir næsta verkefni. Mbappe er fyrirliði landsliðsins og þriðji markahæsti leikmaðurinn á eftir Olivier Giroud og Thierry Henry.
Athugasemdir