Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 10. janúar 2023 11:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
„Eiga að spyrja sig að því af hverju allir þessir leikmenn vildu fara"
Joey Gibbs.
Joey Gibbs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan fagnar marki síðasta sumar.
Stjarnan fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur spilað með Keflavík frá 2020.
Hefur spilað með Keflavík frá 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Stjarnan er félag sem ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir. Eftir að ég talaði við þjálfarana og aðra menn hjá félaginu þá var ég hrifinn af þeirra metnaði og því verkefni sem þeir eru að byggja hér," segir Joey Gibbs, nýr leikmaður Stjörnunnar, í samtali við Fótbolta.net.

„Það voru nokkur félög sem heyrðu í mér, bæði hér á Íslandi og í Asíu," segir Gibbs en það var Stjarnan sem varð fyrir valinu hjá honum.

Gibbs hafði verið hjá Keflavík frá 2020 og átti hann stóran þátt í því að liðið komst upp í Bestu deildina það sumarið. Hann skoraði þá 21 mark í 19 leikjum í Lengjudeildinni. Hann skoraði tíu mörk í 22 leikjum á sínu fyrsta tímabili í Bestu deildinni, en á síðustu leiktíð skoraði hann fimm mörk í 21 leik.

„Það var ekki auðveld ákvörðun þar sem ég hef eignast góða vini í liðinu í Keflavík og ég deildi góðum minningum með þeim."

Bjóst við því að þeir yrðu vonsviknir
Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag. Þar blés hann á sögusagnir um fjárhagsörðugleika hjá félaginu.

Hann gagnrýndi þá Gibbs fyrir að yfirgefa félagið. „Við sjáum eftir Joey Gibbs því við gáfum honum ansi mikinn slaka á síðasta tímabili. Það var mikið af hvísli í kringum það en við vorum bara góðir við hann. Hann var að eignast sitt fyrsta barn og vildi eyða tíma með konunni sinni og við sýndum því skilning, en fáum þetta til baka."

„En þetta er fótboltinn í dag. Ég er af þeirri kynslóð að allt var unnið í sjálfboðavinnu, leikmenn voru í sjálfboðavinnu. Leikmenn gerðu allt fyrir félagið og fyrir merkið. En í dag er þetta orðinn annar bransi. Þetta er farið að snúast um kaup og sölur en fyrir mér er fótboltinn bara ástríða," sagði Sigurður.

Gibbs var spurður út í þessa gagnrýni og segir hann: „Já, ég bjóst við því að þeir yrðu vonsviknir."

„Ég vil ekki vera að tjá mig mikið um þetta en þegar 6-7 af lykilmönnum - bæði erlendir leikmenn og heimamenn - yfirgefa félagið eftir frekar árangursríkt tímabil þá er kannski betra að líta í spegil en að gagnrýna þessa leikmenn. Þeir ættu að líta á sjálfa sig og sína verkferla, og spyrja sig að því af hverju allir þessir leikmenn vildu fara," segir Ástralinn en hann lítur glaður til baka á tímann sinn með Keflavík.

„Ég lít til baka á tímann með Keflavík með bros á vör. Ég átti góðan tíma með þessum hóp og er stoltur af vegferðinni sem við tókum; við komumst upp og okkur tókst að lenda um miðja deild í Bestu deildinni."

Vil vera hluti af einhverju sérstöku
Gibbs er spenntur fyrir næstu leiktíð í Garðabænum. Hann kemur til landsins í næstu viku og hefur þá æfingar fyrir næsta sumar með nýja liði sínu.

„Ég vil vera hluti af einhverju sérstöku með þessu liði á næstu leiktíð. Það er erfitt að tala um markmið enn sem komið er þar sem ég á eftir að koma mér inn í hópinn. Ég mæti til landsins í næstu viku. En ég veit hver metnaðurinn er og sá metnaður passar mjög vel fyrir mig," segir Gibbs.

„Ég veit að hópurinn er að leggja mikið á sig og ég hlakka til að koma til móts við hann. Fjölskylda mín er líka spennt að koma til Íslands þar sem við njótum þess mikið að vera hérna."

Stjarnan hafnaði í fimmta sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð en það verður fróðlegt að sjá hvort liðið komist ofar í sumar.

Sjá einnig:
Sindri talar mjög opinskátt um stöðuna í Keflavík: Tel það vera peningavandamál sem er mjög súrt
Athugasemdir
banner
banner