Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum dagsins víðsvegar um Evrópu.
Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliðinu hjá Lille og lék allan leikinn í markalausu jafntefli á útivelli gegn Auxerre í efstu deild franska boltans.
Lille fékk hættulegri færi í leiknum og klúðraði Jonathan David vítaspyrnu á 58. mínútu en hvorugu liði tókst að skora. Hákon er orðinn mikilvægur partur af leikmannahópi Lille og var þetta fjórði deildarleikurinn sem hann byrjar í röð.
Lille er í fjórða sæti frönsku deildarinnar með 29 stig eftir 17 umferðir, en þetta var þriðja jafntefli liðsins í röð.
Adam Ægir Pálsson var þá ekki í hóp hjá Perugia frekar en Patrik Sigurður Gunnarsson hjá Kortrijk. Adam er orðaður við SPAL á meðan Patrik er að glíma við meiðsli.
Þá voru einnig æfingaleikir sem fóru fram í dag þar sem Hólmbert Aron Friðjónsson kom inn af bekknum í jafntefli hjá Preussen Münster gegn ungverska stórveldinu Ferencvaros.
Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði Hertha Berlin í 2-0 sigri gegn Sandhausen og fékk Davíð Kristján Ólafsson að spreyta sig í tapleik hjá Cracovia í Póllandi.
Auxerre 0 - 0 Lille
Perugia 1 - 0 Capri
St. Liege 1 - 0 Kortrijk
Preussen Munster 0 - 0 Ferencvaros
Hertha Berlin 2 - 0 Sandhausen
Cracovia 2 - 3 Puszcza
Athugasemdir