Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
banner
   lau 10. febrúar 2024 18:43
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Hefði verið villta vestrið með bláum spjöldum
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp svaraði spurningum eftir 3-1 sigur Liverpool gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag, þar sem heimamenn höfðu betur á Anfield þrátt fyrir fína frammistöðu gestanna frá Burnley.

Klopp segist finna til með Vincent Kompany, knattspyrnustjóra Burnley, og vonast til að meiðsli Trent Alexander-Arnold séu ekki slæm eftir að honum var skipt af velli í hálfleik.

„Ég get ímyndað mér hvernig Kompany líður núna, þeir spiluðu flottan leik og sköpuðu vandamál fyrir okkur. Yfir heildina litið vorum við samt betri og skoruðum stórkostleg mörk," sagði Klopp, en staðan var jöfn 1-1 í leikhlé.

„Við vorum við stjórn þó að staðan hafi verið jöfn og í síðari hálfleik héldum við áfram að spila okkar leik. Þetta var fullkominn leikur fyrir okkur, fyrir utan auðvitað meiðslin hjá Trent. Þetta eru aftur hnémeiðsli, hann fann fyrir sársauka svo við tókum hann út í öryggisskyni. Við vonum að þetta sé ekki alvarlegt."

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, með 54 stig eftir 24 umferðir - tveimur stigum fyrir ofan Englandsmeistara Manchester City sem eiga leik til góða.

„Þetta er gríðarlega spennandi titilbarátta í ár. Tottenham, Villa og Arsenal eru öll með í þessu. Hlutirnir breytast hratt í fótbolta og núna erum við til dæmis að glíma við meiðslavandræði í hverri einustu stöðu hjá okkur, en fyrir aðeins tveimur vikum vorum við með alla menn í góðu standi og þá gekk ótrúlega vel. Það þarf heppni til að ganga vel og ef maður hefur ekki heppnina með sér þá verður maður að leggja sig enn meira fram til að sigra."

Klopp tjáði sig að lokum um bláu spjöldin sem eru fyrirhuguð fyrir næstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta var mjög tilfinningaþrunginn leikur. Ímyndið ykkur ef dómarinn hefði verið með blátt spjald til taks - það hefði verið villta vestrið! Það voru svo mörg gul spjöld í dag, ég veit ekki einu sinni hvers vegna Vincent Kompany fékk eitt stlíkt. Ég skil hvers vegna ég fékk gult spjald, það er allt í lagi svo lengi sem ég fæ ekki blátt spjald. Ég vil ekki þurfa að sitja einhversstaðar í 10 mínútur!"
Athugasemdir
banner
banner
banner