Það fóru nokkrir Íslendingaslagir fram í dag og var Bjarki Steinn Bjarkason í byrjunarliði Venezia sem heimsótti Sudtirol í B-deild ítalska boltans.
Staðan var 0-1 fyrir Venezia þegar Mikael Egill Ellertsson kom inn af bekknum fyrir Bjarka Stein, og átti Mikael stoðsendingu skömmu síðar. Lokatölur urðu 0-3 fyrir Feneyinga sem eru í góðri stöðu í toppbaráttu deildarinnar. Þeir eru aðeins einu stigi frá Cremonese í öðru sæti, sem veitir þátttökurétt í Serie A á næstu leiktíð.
Hjörtur Hermannsson spilaði þá fyrri hálfleikinn í 2-0 sigri Pisa gegn Sampdoria. Staðan var markalaus í leikhlé en Pisa vann seinni hálfleikinn. Pisa er þremur stigum frá umspilssæti á meðan Sampdoria er fimm stigum fyrir ofan fallsæti.
Í annarri deildinni í Þýskalandi var Þórir Jóhann Helgason í byrjunarliði Braunschweig í 2-0 sigri gegn Karlsruher. Þórir spilaði fyrstu 85 mínúturnar og var þetta gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Braunschweig. Þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu fimm deildarleikjum og er Braunschweig loksins komið upp úr fallsæti. Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði í 1-1 jafntefli Fortuna Düsseldorf gegn Elversberg.
10.02.2024 15:30
Ísak skoraði þegar slæmt gengi Dusseldorf hélt áfram
Í efstu deild í Belgíu var Jón Dagur Þorsteinsson í byrjunarliði OH Leuven í 1-0 tapi gegn Standard Liege. Leuven er þar í harðri fallbaráttu, með 24 stig eftir 25 umferðir.
Í gríska boltanum kom Guðmundur Þórarinsson inn af bekknum í 4-0 tapi OFI Crete gegn stórveldi Olympiakos. Gumma tókst ekki að koma í veg fyrir stórt tap og er Krítarliðið í neðri hluta deildarinnar, með 20 stig eftir 22 umferðir.
Jón Daði Böðvarsson var þá ónotaður varamaður í 1-1 jafntefli Bolton á útivelli gegn Northampton í ensku League One deildinni. Þar er Bolton í harðri toppbaráttu, með 59 stig eftir 29 umferðir.
Að lokum var mikið magn æfingaleikja sem fór fram, þar sem Atli Barkarson, Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason voru allir í byrjunarliði SönderjyskE sem lagði Halmstad að velli, 1-0.
Viking sigraði þá gegn Djurgården á meðan Öster tapaði á móti Varnamo, Nordsjælland sigraði gegn BK Häcken og Esbjerg rúllaði yfir Midtjylland.
Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Ari Jónsson voru þá í byrjunarliði Ham-Kam í 2-1 sigri gegn Lyngby, sem var með Kolbein Birgi Finnsson og Andra Lucas Guðjohnsen í byrjunarliðinu. Sævar Atli Magnússon kom inn af bekknum.
Óli Valur Ómarsson var í tapliði Sirius gegn Randers og Varberg lagði Falkenberg að velli.
Í kvennaboltanum rúllaði Kristianstad yfir Malmö í æfingaleik, þar sem Hlín Eiríksdóttir og Katla Tryggvadóttir skoruðu í 5-0 sigri. Hlín setti þrennu í sigrinum.
Växjö lagði þá Norrköping að velli og skoraði Bryndís Arna Níelsdóttir eitt marka Vaxjö í sigrinum.
Athugasemdir