Kantmaðurinn knái Ansu Fati hefur aðeins komið við sögu í átta leikjum með Barcelona á tímabilinu. Hann þótti gífurlega mikið efni fyrir nokkrum árum en hefur ekki tekist að endurheimta gamla formið sitt eftir að hafa lent í afar slæmum meiðslum í nóvember 2020.
Fati er 22 ára gamall og neitaði að fara frá Barcelona á lánssamningi í janúarglugganum. Hann lék á láni hjá Brighton á síðustu leiktíð en mistókst að láta ljós sitt skína í enska boltanum, þar sem honum tókst aðeins að skora fjögur mörk og gefa eina stoðsendingu í 27 leikjum í öllum keppnum.
Fati bárust ýmis lánstilboð í janúarglugganum, meðal annars frá stórliðum úr tyrkneska boltanum, en hann ákvað að vera áfram í Barcelona. Hann á tvö og hálft ár eftir af samningi við félagið.
„Ansu Fati er að standa sig mjög vel á æfingum, hann er stöðugt að bæta sig. Hann er á réttri braut og gæti tekið þátt í einhverjum af næstu leikjum," segir Hansi Flick þjálfari Barcelona, sem er sagður vera í samningsviðræðum við félagið.
„Ég elska að vera hjá Barcelona. Ég elska starfið mitt hér, ég elska að starfa fyrir þetta félag. Ég er ánægður með liðið mitt og ég held að við getum afrekað frábæra hluti saman. Það sést líka á gæðunum í La Masia Akademíunni að framtíðin er björt í Barcelona."
Barcelona er í þriðja sæti spænsku deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Real Madrid, auk þess að vera búið að tryggja sér þátttökurétt í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Athugasemdir