Jamal Musiala sóknartengiliður FC Bayern og þýska landsliðsins meiddist illa í 2-0 tapi gegn PSG í 8-liða úrslitum á HM félagsliða á dögunum.
Musiala meiddist eftir samskipti sín við Gianluigi Donnarumma sem var gagnrýndur af ýmsum aðilum eftir atvikið, en fékk einnig mikinn stuðning þar sem um óviljaverk var að ræða.
Musiala sjálfur er þegar byrjaður á strangri endurhæfingu eftir að hafa gengist undir aðgerð á vinstri ökkla. Bein brotnaði í ökklanum sem fór einnig illa úr lið.
Musiala, sem er aðeins 22 ára gamall, verður frá keppni í um fjóra mánuði vegna meiðslanna. Hann veit að eina leiðin er fram veginn og er búinn að fyrirgefa Donnarumma fyrir atvikið.
Donnarumma birti færslu á Instagram degi eftir leikinn þar sem hann óskaði Musiala skjóts bata. „Allar mínar bænir eru með þér," skrifaði ítalski markvörðurinn.
Musiala svaraði færslunni með ummælum í gær sem hafa fengið gríðarlega mikið af jákvæðum viðbrögðum.
„Takk fyrir bataóskirnar og ekki hafa áhyggjur! Þetta er partur af leiknum," skrifaði Musiala í svari sínu fyrir allra augum og hefur fengið mikið lof fyrir.
Sjáðu færsluna á Instagram
Athugasemdir