Spænska félagið Real Betis er að vinna hörðum höndum að því að kaupa brasilíska kantmanninn Antony úr röðum Manchester United.
Antony lék með Betis á láni á síðustu leiktíð og reyndist mikilvægur hlekkur fyrir byrjunarliðið.
Man Utd er sagt vilja fá um 40 milljónir punda til að selja Antony, sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Rauðu djöflana. Ólíklegt er að Betis hafi efni á honum og er félagið að leita leiða til að fá hann á lánssamningi með kaupmöguleika.
Antony er 25 ára gamall og kom að 15 mörkum í 40 leikjum með Betis á síðustu leiktíð.
Til samanburðar hefur leikmaðurinn aðeins komið að 17 mörkum í 96 leikjum með Man Utd.
Talið er að Rauðu djöflarnir séu ekki reiðubúnir til að lána Antony án þess að hafa kaupskyldu með í samningnum. Það er gert til að félagið neyðist ekki til að selja leikmanninn ódýrt næsta sumar, þegar hann mun aðeins eiga eitt ár eftir af samningi.
Man Utd borgaði 86 milljónir punda til að kaupa Antony frá Ajax, en stóðst alls ekki þær væntingar sem voru gerðar til hans.
Leikmaðurinn þarf einnig að taka á sig launalækkun til að ganga til liðs við Betis. Hann fær um 150 þúsund pund í vikulaun í Manchester, en talið er að Betis geti greitt honum 100 þúsund evrur á viku sem er rúmlega 30% lækkun.
Athugasemdir