Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano er ósammála Tuttosport og öðrum ítölskum fjölmiðlum sem halda því fram að Juventus sé búið að ná samkomulagi við Manchester United um félagaskipti Jadon Sancho.
Romano segir að Juve sé ekki búið að senda formlegt tilboð til Man Utd og að ítalska félagið sé heldur ekki reiðubúið til að greiða ofurlaun Sancho, sem nema um 250 til 300 þúsund pundum á viku.
Juve hefur ekki sett sig í samband við Man Utd en félagið er búið að ræða við umboðsteymi Sancho, sem var gert grein fyrir að leikmaðurinn þyrfti að taka á sig launalækkun til að skipta yfir.
Sancho er eftirsóttur af ýmsum félögum en ekkert þeirra er tilbúið til að greiða himinháan launapakka sem fylgir honum. Kantmaðurinn er aðeins með eitt ár eftir af samningi við Rauðu djöflana, en hann kostaði félagið 73 milljónir punda fyrir fjórum árum.
Athugasemdir