Napoli reynir aftur við Garnacho - Arsenal ekki að ná að semja við Sporting um Gyökeres - Kudus í læknisskoðun hjá Spurs
   fim 10. júlí 2025 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
„Þá er það engin trygging fyrir einu né neinu"
Icelandair
EM KVK 2025
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland er úr leik á EM.
Ísland er úr leik á EM.
Mynd: EPA
Ísland er úr leik á EM eftir tvö töp gegn Finnlandi og Sviss. Framundan er lokaleikur mótsins gegn Noregi í dag þar sem liðið ætlar sér að enda mótið á jákvæðum nótum.

Það er óhætt að segja að hlutirnir hafi ekki dottið fyrir íslenska liðið á mótinu en Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður að því á fréttamannafundi í gær hvaða lærdóm hann gæti dregið af fyrstu tveimur mótsins.

„Ef maður greinir leikina, þá eru þrír hálfleikir hjá okkur fínir," sagði Þorsteinn.

„Maður er búinn að horfa á þetta margoft og skoða þetta út og suður allt saman. Fyrri hálfleikurinn á móti Finnlandi var ekki góður og það er eitthvað sem við getum dregið lærdóm af; það tók okkur of langan tíma að ná réttu spennustigi inn í mótið."

„Leikurinn gegn Sviss var heilt yfir góður og seinni hálfleikurinn - allavega fyrstu 40 mínúturnar - voru mjög góðar. Fyrri hálfleikur var fínn í þeim leik. Við þurfum að draga þann lærdóm að við þurfum að ná spennustiginu réttu frá því við mætum á svæðið. Auðvitað er alltaf hátt spennustig í byrjun en þú þarft að vera fljótur að ná jafnvægi í kollinum á þér til að takast á við þetta."

Steini segir að undirbúningsvinnan fyrir mótið hafi verið gríðarleg og teymið í kringum liðið hafi lagt mikið á sig.

„Fyrir mig persónulega, þá held ég að ég geti dregið þann lærdóm að það er margt sem þú gerir í undirbúningnum sem skiptir máli en stundum er það þannig að þó þú undirbýrð þig ógeðslega vel og þér finnst allt vera fullkomið hjá þér - þannig séð - þá er það engin trygging fyrir einu né neinu."

„Sú vinna sem ég og teymið höfum lagt í þetta hefur verið gríðarleg, en svo þegar á hólminn er komið erum við náttúrulega ábyrg fyrir því - og sérstaklega ég - að hlutirnir hafi ekki gengið. En ég tel samt sem áður og ég segi það fullum fetum að ég held að við höfum undirbúið okkur eins vel og við mögulega gátum. Við gerðum allt sem við gátum. Þó það séu einhver smaátriði til eða frá sem eru ekki fullkomin hjá okkur þá tel ég að í flestöllu undirbjuggum okkur eins vel og við mögulega gátum fyrir þetta mót."

Heilt yfir er það þó líklega sanngjarnt að Ísland sé á leið heim. Á svona mótum skipta smáatriðin gríðarlegu máli og liðið gerði ekki nóg til að verðskulda það að fara áfram í þessari keppni. Það er líklega margt sem þarf að fara yfir eftir þessa keppni.
Athugasemdir
banner
banner
banner