
„Þetta er búið að vera mjög gaman. Við fórum 2017 fyrst og þá tókum við Cecilíu með okkur. Svo vorum við í Englandi síðast og núna hérna," sagði Rúnar Haraldsson, pabbi Cecilía Ránar, landsliðsmarkvarðar Íslands, í samtali við Fótbolta.net á stuðningsmannasvæði Íslands í Thun í dag.
Cecilía hefur varið mark Íslands á mótinu og staðið sig virkilega vel. Hún er aðeins 21 árs gömul og á framtíðina fyrir sér.
Er meira stress að fylgjast með núna þegar Cecilía er í markinu?
„Ég er aldrei stressaður yfir Cecilíu," sagði Rúnar. „Hún skilar alltaf sínu, hefur alltaf gert það og mun alltaf gera það."
Hann segir það frábært að sjá Cecilíu í íslensku landsliðstreyjunni á stóra sviðinu á Evrópumótinu. Cecilía hefur gert vel að koma til baka eftir meiðsli, er komin til Inter á Ítalíu og er orðin byrjunarliðsmarkvörður í landsliðinu.
„Hún er búin að vera að stefna að þessu frá því hún var lítil stelpa. Hún var hætt að borða nammi í Tenerife ferðinni þegar hún var tíu ára. Þetta hefur alltaf verið á stefnuskránni hjá henni, að vera atvinnumaður. Þetta er rétt að byrja," sagði Rúnar en í viðtalinu hér að ofan segir hann frá því hvernig Cecilía byrjaði í marki.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir