Fabrizio Romano greinir frá því að Barcelona vilji losna við annað hvort Memphis Depay eða Pierre-Emerick Aubameyang í sumar en alls ekki báða.
Börsungar hafa bætt tveimur framherjum við leikmannahópinn í sumar, Raphinha og Robert Lewandowski, svo nú er einn auka framherji í hópnum sem félagið þarf að losna við.
Memphis er 28 ára gamall og aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við félagið en hann skoraði 12 mörk í 27 deildarleikjum á síðustu leiktíð. Barca er í viðræðum við leikmanninn um riftun á samningi og hafa bæði Juventus og Manchester United áhuga á að krækja í framherjann fjölhæfa á frjálsri sölu.
Aubameyang er 33 ára og með þrjú ár eftir af sínum samningi. Hann skoraði 11 mörk í 17 deildarleikjum á Spáni í vor og hefur Chelsea áhuga á að fá hann til sín.
Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur áður þjálfað Aubameyang þegar þeir voru báðir hjá Borussia Dortmund. Hann áttar sig á því að það vantar nokkur prósent upp á fagmennskuna hjá Aubameyang sem er mikið í því að mæta seint og vera með fíflalæti. Hann telur sóknarmanninn þó vera tilvalinn til að leysa vandamálin í sóknarleik félagsins þar sem Romelu Lukaku og Timo Werner eru farnir aftur til Inter og RB Leipzig eftir misheppnaða dvöl.
Romano segir að Tuchel sé búinn að gera Aubameyang að helsta skotmarki sínu og vinnur nú að því að sannfæra Todd Boehly eiganda um að fjárfesta í framherjanum.
Framherjar Barcelona:
Robert Lewandowski
Pierre-Emerick Aubameyang
Memphis Depay
Ansu Fati
Ferran Torres
Ousmane Dembele
Raphinha
Martin Braithwaite
Úti á láni:
Francisco Trincao
Antoine Griezmann (möguleg kaupskylda hjá Atletico)