banner
   mið 10. ágúst 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Roma hafnaði tilboði Tottenham í Zaniolo
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Roma hafi hafnað tilboði frá Tottenham í sóknartengiliðinn öfluga Nicoló Zaniolo. 


Zaniolo er 23 ára gamall og þekktur fyrir að vera einstaklega hæfileikaríkur en mjög óheppinn með meiðsli þar sem hann hefur slitið krossband tvisvar á ferlinum.

Hæfileikar Zaniolo eru þó óumdeildir og þykir hann með betri leikmönnum ítalska boltans þegar hann er heill. Frábær tæknileg geta, mikill styrkur og sprengikraftur gera hann að afburðagóðum fótboltamanni í Serie A.

Times segir Tottenham hafa boðið eins árs lánssamning með kaupskyldu uppá 20 milljónir punda til að kaupa Zaniolo en ítalskir fjölmiðlar eru ósammála og segja tilboðið hafa verið öðruvísi.

Ítalirnir segja að Tottenham hafi boðið 10 milljónir evra fyrir eins árs lánssamning með kaupmöguleika uppá 40 milljónir. Roma hafi hafnað tilboðinu - ítalska félagið vill 50 milljón evru kaupskyldu í samningnum.

Zaniolo leikur ýmist úti á hægri kanti eða í holunni fyrir aftan fremsta sóknarmann.

Þrátt fyrir þrálát meiðslavandræði hefur Zaniolo tekist að skora 22 mörk og gefa 15 stoðsendingar í 111 leikjum fyrir Roma og þá á hann 2 mörk í 9 leikjum fyrir Ítalíu.

Tottenham hefur gengið vel að krækja í öfluga leikmenn úr ítalska boltanum með Antonio Conte og Fabio Paratici við stjórnvölinn þar sem Cristian Romero, Rodrigo Bentancur og Dejan Kulusevski hafa allir verið að gera góða hluti. Þá er Ivan Perisic nýkominn til félagsins á frjálsri sölu frá Inter.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner