Anthony Martial, framherji Manchester United, ber Jose Mourinho ekki vel söguna en hann talar um hann í löngu viðtali við France Football í dag.
Louis van Gaal keypti Martial frá Mónakó árið 2015. Frakkinn þótti einn efnilegasti framherji heims á þeim tíma og var mikil spenna fyrir honum.
Hann byrjaði frábærlega og skoraði fyrsta mark sitt í 1-1 jafntefli gegn Liverpool. Martial minnti svakalega á Thierry Henry en ferill hans hefur ekki beint farið í sömu átt og hjá Henry.
Van Gaal var látinn fara árið 2016 og tók þá Jose Mourinho við liðinu.
Martial spilaði í treyju númer 9 en Mourinho bauð honum að fá treyju númer 11 í staðinn. Martial afþakkaði boðið kurteisislega, en þegar hann snéri aftur úr fríi var búið að taka treyjunúmerið af honum. Það var byrjunin á stormasömu sambandi þeirra.
„Þetta byrjaði útaf treyjunúmerinu. Þegar ég var í fríi þá sendi hann mér skilaboð og spurði hvort ég væri til í að taka treyju númer 11 og útskýrði hann að það væri geggjað númer og að goðsögnin Ryan Giggs hefði spilað í því númeri. Ég sagði honum að ég bar mikla virðingu fyrir goðsögninni Ryan Giggs en ég væri frekar til í að halda níunni. Þegar ég snéri til baka úr fríi þá sá ég að ég var númer 11 og sú saga endaði ekki vel," sagði Martial.
Mourinho fékk Alexis Sanchez í janúar árið 2017 þó svo Martial hafði skorað 8 mörk í öllum keppnum í fyrri hlutanum fékk hann aðeins að byrja átta deildarleiki eftir áramót. Hann segir að það varð til þess að hann missti af HM.
„Hann sýndi mér vanvirðingu. Hann talaði um mig í fjölmiðlum með litlum frösum, svipað og hann gerði með Karim Benzema hjá Real Madrid. Tímabilið 2017-2018 var ég markahæsti maður liðsins fyrri hluta tímabilsins og hann fékk Alexis Sanchez inn og eftir það spilaði ég ekki mikið. Þetta var tímabilið fyrir HM og það kostaði mig mikið þegar allt kemur til alls og sérstaklega þar sem Frakkland vann mótið. Ég átti að vera þarna," sagði Martial ennfremur.
Eftir HM mætti hann seint til United á undirbúningstímabilinu og var ekki í náðinni hjá Mourinho í byrjun tímabilsins. Hann náði að vinna Mourinho aftur á sitt band og var í lykilhlutverki áður en Mourinho var rekinn í desember sama ár.
Athugasemdir