Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 11. apríl 2014 15:40
Mist Rúnarsdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
„Tjels, tjels“
Mist Rúnarsdóttir
Mist Rúnarsdóttir
Það má finna ýmislegt á mörkuðunum í Lusaka
Það má finna ýmislegt á mörkuðunum í Lusaka
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Zambía kom mörgum á óvart og varð Afríkumeistari 2012
Zambía kom mörgum á óvart og varð Afríkumeistari 2012
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Fréttatafla hverfisins greinir frá úrslitum í enska boltanum
Fréttatafla hverfisins greinir frá úrslitum í enska boltanum
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Vinsælt er að skíra búðir og bari eftir fótboltaliðum
Vinsælt er að skíra búðir og bari eftir fótboltaliðum
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Allir í boltanum, alltaf..
Allir í boltanum, alltaf..
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
„Tjels, tjels“.. „Tjels, tjels“.. Heyrði ég ýmist pískrað eða hrópað í kringum mig þegar ég þræddi götumarkaði í Lusaka. Ég tók þessi orð ekki sérstaklega til mín enda skildi ég ekkert í þeim. Þar sem ég var nýkomin til Zambíu og ekki búin að kynnast tungumálunum þá gat þetta svosem þýtt hvað sem er. Verandi hvít á litinn (og mögulega í of stuttum buxum) gat ég svosem átt von á að vekja athygli en þegar fólk vill ná sambandi þá hrópar það yfirleitt „Mzungu“ (hvít manneskja) eða eitthvað á ensku.

Það var ekki fyrr en maður í Chelsea búning kom upp að mér skælbrosandi, rak þumalinn upp í loft og sagði „Tjels“ sem ég áttaði mig. Blái Adidas bolurinn sem ég klæddist minnir um margt á liðsbúning Chelsea og allt þetta „tjels, tjels“ hafði því beinst að mér. Ég brosti og gaf honum „thumbs up“ á móti. Sagði hinsvegar að ég væri Arsenal-kona og þetta væri nú ekki Chelsea-treyja heldur bara blár bolur sem ég hafði fengið gefins. Hann hló bara að því og ítrekaði að Chelsea væru bestir áður en leiðir okkar skildu.

Það er mikill fótboltaáhugi í Zambíu og í höfuðborginni er magnað að sjá hversu margir klæðast landsliðstreyjunni; Karlar, konur og börn. Hún er eiginlega eins og einhverskonar þjóðbúningur. Það er ekki á færi allra að hafa efni á okurtreyjum stóru íþróttarisanna en í Zambíu, sem er eitt fátækasta ríki heims, er hægt að kaupa ódýrar eftirlíkingar á hverju götuhorni og fleiri geta því skartað búningnum en ella. Fótboltabúningar eru vinsælir í nágrannaríkjunum en landsliðstreyjur sjaldséðar og ég velti fyrir mér hvort að frábær sigur Zambíu í Afríkukeppninni 2012 hafi ýtt undir söluna á þeim eða hvort að þjóðin sé bara svona rosalega fótboltasjúk.

Helgina eftir röltið í Lusaka spiluðu Arsenal og Chelsea. Þar sem að 8 tíma rútuferðin mín tók 18 tíma þá missti ég af leiknum. Á sunnudegi eftir leik gekk ég ásamt vinkonu minni um landamærabæinn Chipata og reyndi að komast að úrslitunum. Við keyptum dagblaðið og þar fundum við mynd af Wenger með fýlusvip og óræð skilaboð um að Arsenal hefði skitið upp á bak. Ég trúði ekki öðru en að það væri prentvilla að liðið mitt hefði tapað 6-0 í svona mikilvægum leik og ákvað að leita öruggari heimilda. Það var svo fyrir utan eina búðina að búið var að breyta fréttatöflu hverfisins í fréttaveitu fyrir enska boltann og þar sá ég svart á hvítu (eða reyndar hvítt á svörtu) að vafasama dagblaðið hafði haft rétt fyrir sér. Elsku óstöðuga liðið mitt hafði tapað 6-0 fyrir þeim bláklæddu.

Tveir eldri menn sátu fyrir utan búðina og fljótlega vorum við komin í hrókasamræður um fótbolta. Öll héldum við með sitt hvoru liðinu, þeir með Man City og Chelsea og við Anna vinkona með Arsenal og Liverpool. Við rifumst aðeins í góðu gríni um hvaða lið væri best en gátum í raun ekki komið okkur saman um annað en að við værum farin að vorkenna Man Utd aðdáendum (en samt eiginlega ekki). Einn mannanna sagði það vera augljóst af hverju þeim gengi svo illa. Það er jú enginn Afrískur leikmaður í liðinu hjá þeim. Annað en hjá Chelsea og Man City þar sem Eto‘o og Toure blómstra.

Eftir að hafa spjallað í stutta stund þá vildu mennirnir vita hvaðan við værum. „We are from Iceland“ svöruðum við og fengum til baka „Ireland? Close to England?“. Algengur misskilningur sem ekki er alltaf auðvelt að leiðrétta en við reyndum. „No, ICEland. It is an island north of Ireland“. „Ahh“, svaraði Chelsea-aðdáandinn, „Iceland! Gudjohnsen?“ og þar með var það afgreitt.

Það er á ferðalögum á framandi slóðum sem ég átta mig best á því hvað fótbolti er frábær. Ég elska fótbolta en fæ ógeð reglulega. Ekki af fótboltanum sjálfum heldur af menningunni í kringum hann. Peningar eru farnir að spila alltof stórt hlutverk, bæði erlendis og heima, og svo fara hrokinn, baktalið og öfundsýkin ofboðslega í taugarnar á mér. En þessi atriði eru ekki fótbolti og ég ætla ekki að láta þau stjórna viðhorfi mínu til þessarar frábæru íþróttar. Fótbolti er gleði, fótbolti er samstaða og fótbolti sameinar.

Fótbolti er frábær. Að geta tengt við fólkmeð gjörólíkan bakgrunn og allt aðra hugmyndafræði í gegnum fótbolta er magnað.
Athugasemdir
banner
banner