fim 11. ágúst 2022 05:55
Ívan Guðjón Baldursson
Sambandsdeildin í dag - Víkingar þurfa að eiga leik lífsins í Poznan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það eru tveir gríðarlega mikilvægir leikir á dagskrá í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld þar sem Víkingur R. heimsækir Lech Poznan til Póllands á meðan Breiðablik kíkir til Istanbúl og spilar við liðsfélaga Mesut Özil í Basaksehir.


Víkingur vann fyrri leikinn gegn Lech Poznan óvænt 1-0 á Víkingsvelli en ljóst er að seinni leikurinn verður gífurlega erfiður. Pólverjarnir munu ekkert gefa eftir enda eiga þeir sára minningu frá því 2014 þegar Stjarnan sló félagið óvænt úr leik í evrópskri forkeppni.

Poznan gefur ársmiðahöfum frítt á völlinn til að reyna að fá góða mætingu á erfiðum tímum fyrir félagið sem hefur ekki verið að gera góða hluti undanfarnar vikur.

Víkingar munu leggja allt í sölurnar vitandi það að Dudelange frá Lúxemborg bíður sigurvegaranna í umspilsleik um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Staðan er erfiðari fyrir Breiðablik sem tapaði heimaleiknum gegn stjörnum prýddu liði Basaksehir 1-3. Seinni leikurinn á útivelli verður gífurlega erfiður en Blikastrákar munu eflaust reyna sitt besta.

Þessi tvö lið eru einmitt í titilbaráttunni í Bestu deildinni þar sem Blikar eru með átta stiga forystu á meðan Víkingur á leik til góða. Bæði lið misstigu sig í síðustu umferð sem fór fram um helgina þar sem Blikar steinlágu gegn Stjörnunni í sjö marka leik á meðan Víkingar gerðu sex marka jafntefli.

Leikir kvöldsins:
17:45 Istanbul Basaksehir-Breiðablik (Stöð 2 Sport 4)
18:30 Lech Poznan-Víkingur R. (Stöð 2 Sport)


Athugasemdir
banner
banner