Mainoo að fá nýjan samning - Tekur Guardiola við enska landsliðinu - Eriksen fer til Ajax
banner
   fös 11. október 2024 14:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þrír leikmenn sem Ísland þarf að fylgjast vel með
Icelandair
Brennan Johnson.
Brennan Johnson.
Mynd: EPA
Harry Wilson.
Harry Wilson.
Mynd: Getty Images
Neco Williams.
Neco Williams.
Mynd: Getty Images
Ísland mætir í kvöld liði Wales á Laugardalsvelli. Þetta er þriðji leikur okkar manna í Þjóðadeildinni en þeir byrjuðu á því að vinna Svartfjallaland og tapa gegn Tyrklandi.

Það má búast við áhugaverðum leik í kvöld en Wales er með hörkulið, og flotta einstaklinga innan sinna raða.

Gareth Bale er ekki lengur þeirra stjarna en hvaða leikmenn þurfum við þá helst að varast?

Brennan Johnson (Tottenham)
Stærsta nafnið í dag er kantmaðurinn knái, Brennan Johnson. Þessi 23 ára gamli eldsnöggi leikmaður var keyptur til Spurs frá Nottingham Forest á síðustu leiktíð fyrir 47,5 milljónir punda. Hann kemur sjóðandi heitur inn í leikinn gegn Íslandi þar sem hann hefur skorað sex mörk í tíu leikjum með Tottenham á þessu tímabili.

Harry Wilson (Fulham)
Öflugur kantmaður sem getur einnig spilað miðsvæðis. Var í akademíu Liverpool og þótti þá mjög efnilegur. Hann er núna orðinn 27 ára og hefur leikið með Fulham frá 2021. Hann var algjör lykilmaður í því að Lundúnafélagið komst aftur upp í ensku úrvalsdeildina og hefur verið fínn leikmaður fyrir félagið í sterkustu deild í heimi.

Neco Williams (Nottingham Forest)
Varnarlega er Wales einnig með sterka leikmenn. Ben Davies verður líklega með fyrirliðabandið í kvöld en hann er á mála hjá Tottenham. Í bakverðinum er þó leikmaður sem Ísland þarf að hafa góðar gætur á, en það er Neco Williams. Eins og Wilson, þá var hann áður hjá Liverpool en hann er núna öflugur leikmaður fyrir Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni. Bakvörður sem getur skapað hættu sóknarlega.

Það vantar sterka leikmenn í lið Wales - eins og Aaron Ramsey, Daniel James og Ethan Ampadu - en hópurinn er samt sem áður sterkur og eru þeir með átta leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni og marga úr Championship, næst efstu deild Englands.

Flautað verður til leiks 18:45 og er um að gera að skella sér á Laugardalsvöllinn til að styðja áfram íslenska landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner