Gian Piero Gasperini gekk af velli í mótmælaskyni
Club Brugge 2 - 1 Atalanta
1-0 Ferran Jutgla ('15 )
1-1 Mario Pasalic ('41 )
2-1 Gustaf Nilsson ('94 , víti)
1-0 Ferran Jutgla ('15 )
1-1 Mario Pasalic ('41 )
2-1 Gustaf Nilsson ('94 , víti)
Belgíska stórveldið Club Brugge tók á móti ítalska toppbaráttuliðinu Atalanta í fyrsta leik kvöldsins í umspili fyrir 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Heimamenn byrjuðu betur í Brugge og voru sterkari aðilinn fyrstu 20 mínúturnar. Þeir tóku forystuna með marki frá Ferran Jutglá eftir skelfileg mistök hjá Stefan Posch í varnarlínunni. Jutglá gerði mjög vel að klára úr nokkuð erfiðu færi.
Atalanta kom sér hægt og rólega inn í leikinn en það var ekki mikið um færi fyrir leikhlé. Mario Pasalic tókst þó að jafna metin með skalla á 41. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Davide Zappacosta svo staðan var jöfn eftir jafnan fyrri hálfleik.
Það ríkti áfram nokkuð jafnræði með liðunum í síðari hálfleik þar sem ekki tókst að skapa mikið af færum. Atalanta fékk hættulegri færi en tókst ekki að skora.
Þegar allt stefndi í 1-1 jafntefli fengu heimamenn í Brugge dæmda vítaspyrnu upp úr þurru, eftir að Isak Hien snerti andlitið á samlanda sínum Gustaf Nilsson innan vítateigs þegar hann baðaði út höndunum á fullri ferð. Snertingin var lítil en tyrkneski dómarinn var viss í sinni sök og staðfesti VAR-teymið ákvörðun hans eftir stutta athugun. Nilsson steig sjálfur á vítapunktinn og tryggði Club Brugge þannig dýrmætan sigur, en liðin eiga eftir að mætast aftur í seinni leiknum á Ítalíu.
Gian Piero Gasperini þjálfari Atalanta brást illa við og gekk af velli og var allur varamannabekkur liðsins brjálaður eftir lokaflautið. Þjálfarateymi Atalanta hrúgaðist að dómurunum til að láta þá heyra það.
Sjáðu vítaspyrnudóminn
Athugasemdir