Hann þjálfaði Njarðvík sumarið 2020 og endaði liðið með 2 stig að meðaltali í leik, 0,15 minna en Selfoss sem fór upp. Tveir leikir voru eftir þegar deildinni var slaufað vegna Covid.
Það sat í manni svolítið lengi að fá ekki að klára mótið, því að mínu mati þá áttum við langléttasta prógramið eftir af þessum liðum sem voru í baráttunni á eftir Kórdrengjunum
Núna er Njarðvík komið á þann stað sem ég tel félagið eiga að vera á og spurning hvort maður nái að gera það með KFA í sumar, það verður bara að koma í ljós.
Í gær varð ljóst að Njarðvík tekur á móti KFA í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn er settur á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn eftir rúma viku og fer fram á gervigrasinu við Nettóhöllina í Reykjanesbæ.
Mikael Nikulásson er þjálfari KFA og fyrrum þjálfari Njarðvíkur. Hann var þjálfari liðsins tímabilið 2020 en var rekinn 4. nóvember það ár. Margir kannast við Mikka úr hlaðvarpsþáttum, fyrst úr Dr. Football og svo Þungavigtinni.
Mikael Nikulásson er þjálfari KFA og fyrrum þjálfari Njarðvíkur. Hann var þjálfari liðsins tímabilið 2020 en var rekinn 4. nóvember það ár. Margir kannast við Mikka úr hlaðvarpsþáttum, fyrst úr Dr. Football og svo Þungavigtinni.
Fótbolti.net ræddi við Mikael í dag, KFA er í æfingaferð á Spáni og kemur hópurinn heim á laugardag. Næst á dagskrá er æfingaleikur gegn Aftureldingu á morgun.
„Hópurinn fyrir sumarið er allur kominn saman, síðasti maður hitti okkur hér á Spáni. Það er allt klárt, allavega eins og staðan er. Við erum mjög ánægðir með hópinn, fengum flesta af þeim leikmönnum sem við ætluðum okkur að fá og það er bara áfram gakk," sagði Mikki.
Vildi helst fá Njarðvík
Fyrir dráttinn í gær, grunaði þig að Njarðvík yrði andstæðingur KFA?
„Ég var einhvern tímann búinn að segja í þættinum (Þungavigtinni) hjá mér að það væri gaman að fá Njarðvíkingana. Það var engin sérstök tilfinning fyrir dráttinn, þetta eru sextán viðureignir, einhver smá möguleiki að þetta færi svona og það datt. Það verður bara gaman."
„Það voru tíu lið úr fyrstu deildinni í pottinum og af þeim vildi ég helst fá Njarðvík. Af þeim kostum fyrir utan risaliðin og kannski þau sem eru í 4. og 5. deild þá vildi ég helst fá Njarðvík. Ég veit ekki hvort menn í klúbbnum séu alveg jafn sáttir, þeir vildu væntanlega fá heimaleik. Þetta er bara bikar og þú færð bara það sem þú færð."
Ef þú hefðir fengið að stýra þessu sjálfur og velja andstæðing, hvaða lið hefði orðið fyrir valinu?
„Segja ekki bara allir liðið sem Valsmenn fengu á heimavelli, RB - ég reikna með að það verði frekar auðveldur leikur fyrir Val - upp á möguleikann á að fara áfram. En fyrir mig var þetta eiginlega draumadrátturinn."
Njarðvík með alvöru lið
Mikki er spenntur að fara til Njarðvíkur. „Það er vika í þetta og menn þurfa að gera sig klára í þetta. Þeir eru með hörkulið og í hörkustandi. Ég horfði á leik með þeim í gær og þetta er bara alvöru lið, búnir að fá inn fullt af leikmönnum. Ef við teljum Mark (McAusland) og Kennie (Hogg), sem voru hjá mér á sínum tíma sem útlendinga, sem þeir eru eiginlega ekki lengur, þá held ég að þeir hafi verið með átta erlenda leikmenn í byrjunarliðinu hjá sér gegn Augnabliki og góða leikmenn á bekknum. Alvöru lið sem við erum að fara mæta og gætu gert góða hluti í fyrstu deildinni í sumar."
Líturu á Njarðvík sem fyrir fram líklegra liðið til að fara áfram? „Þeir hljóta að vera 'favorites', á heimavelli og deild ofar en KFA. Þeir rúlluðu yfir 2. deildina á síðasta ári á meðan KFA endaði í 10. sæti. Það er ekki búið að spila neina leiki í Íslandsmóti síðan þá og ég held að Njarðvíkurliðið sé sterkara núna. Við höfum náð í fín úrslit í vetur en erum ekki búnir að spila við neitt lið fyrir ofan 2. deild. Á meðan hafa þeir verið að ná í hörkuúrslit í mörgum leikjum og unnu m.a. flott lið Aftureldingar 4-1 í deildabikarnum. Ég myndi halda að þegar menn fara stuðla þessa leiki að það verði mun lægri stuðull á Njarðvík. En ég get lofað þeim því að þeir fá hörkuleik."
Ívið sterkari hópur en í fyrra
Sérðu það núna að þú ert með betra lið en KFA var með í fyrra?
„Úrslitin hafa verið betri, deildabikarinn var betri. Ég veit ekki 100 prósent hvernig þetta var í fyrra. Þá byrjuðu þeir mótið ekkert sérstaklega en komu svo aðeins upp og voru búnir að halda sér í deildinni nokkurn veginn þegar svolítið var eftir af mótinu."
Eftir leikinn gegn Njarðvík er næsta verkefni KFA heimaleikur gegn ÍR í undanúrslitum B-deildar Lengjubikarsins.
„Varðandi útlendingamál þá eru margir sem eru búsettir á svæðinu og orðnir hálfgerðir Íslendingar. Það eru flestir áfram, þrír sem fóru og við erum búnir að taka inn þrjá í staðinn, plús annan markmann. Síðan koma Unnar og Arek aftur heim og þeir styrkja liðið hjá mér. Á móti hættu tveir Íslendingar sem eru fínir fótboltamenn og því er hópurinn þannig séð svipaður - þó kannski ívið sterkari. Nýju erlendu leikmennirnir líta vel út og við erum fullir sjálfstrausts fyrir þetta tímabil og ætlum okkur góða hluti. Það er alveg klárt."
Geta farið langt ef hausinn er rétt skrúfaður á
Hvert er markmiðið fyrir komandi tímabil?
„Stefnan er að vera í toppbaráttunni á deildinni, það er ekkert flóknara en það. Það var stefnan hjá mér með Njarðvík og er stefnan fyrir austan líka. Ég tel að við getum verið þar. Að því sögðu erum við búnir að vinna mjög auðvelda sigra á sumum liðum í 2. deildinni í deildabikarnum, en á móti kemur erum við líka búnir að tapa fyrir Völsungi og töpuðum gegn Magna í Kjarnafæðismótinu."
„Þetta er bara þannig að þú þarft að vera með hausinn rétt skrúfaðan á, það er klárt mál að við getum unnið öll liðin í deildinni, en við getum líka tapað fyrir þeim öllum. Þetta snýst bara um að vera í standi, við erum með gott lið, alveg klárt mál, en menn þurfa að sýna það inn á vellinum og klára 90 mínútur í hverjum leik."
Leiðinlegast að fá ekki að klára mótið
Eftir að það var dregið í gær, hefur hausinn farið til baka til ársins brottrekstursins frá Njarðvík 2020?
„Nei, það er bara búið. Það var hart og fór hátt á sínum tíma, það er eins og það er. Ég er fljótur að fyrirgefa og þetta er hluti af boltanum. Það var bara hvernig þetta bar að á sínum tíma sem var sérstakt, en þeir tóku bara sína ákvörðun. Ég er ekkert fyrsti gæinn eða sá síðasti sem er látinn fara úr þjálfarastarfi. Við sjáum núna Nagelsmann félaga ykkar, hann var látinn fara frá Bayern um daginn og Bayern er eiginlega dottið úr tveimur keppnum á tveimur vikum. Svona er þetta bara í þessum bransa, bara leiðinlegt hvernig var staðið á þessu."
„Þetta var þetta covid ár sem mér fannst leiðinlegast við þetta, að fá ekki annað ár sem var eðlilegt. Það sat í manni svolítið lengi að fá ekki að klára mótið, því að mínu mati þá áttum við langléttasta prógramið eftir af þessum liðum sem voru í baráttunni á eftir Kórdrengjunum. Við vorum vissulega í 4. sætinu en maður veit ekki hvernig það hefði endað. Súrt að fá ekki að klára mótið og fá ekki að halda áfram með liðið. Það hefði kannski verið öðruvísi ef við hefðum klárað mótið og ekki náð markmiðunum - sem voru að fara upp."
„Núna er Njarðvík komið á þann stað sem ég tel félagið eiga að vera á og spurning hvort maður nái að gera það með KFA í sumar, það verður bara að koma í ljós."
Töldu Bjarna Jó vera betri kost
Þú varst svekktur við brottreksturinn á sínum tíma. Fékkstu einhvern tímann í kjölfarið frekari skýringar af hverju Njarðvík vildi breyta til?
„Nei nei, ekkert þannig. Bara það að þeir töldu að Bjarni Jó, sem tók við af mér, væri betri kostur á þeim tíma. Það var einfaldlega það eina sem ég fékk sem skýringu. Hvort hann var það eða ekki munum við aldrei vita. Fyrra árið gekk ekki vel hjá honum en í fyrra voru þeir frábærir, unnu deildabikarinn og þeir rúlluðu yfir mótið. Bjarni gerði mjög góða hluti á ári tvö."
„Ég fer aftur í Bayern dæmið, þeir telja Tuchel betri kost en Nagelsmann þó að Nagelsmann væri með 100% árangur í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Svona er þetta bara. Njarðvík taldi bara Bjarna vera betri kost. Bjarni er búinn að ná frábærum árangri á sínum ferli og það er ekkert víst að ég hefði gert betri hluti með Njarðvík strax 2021. Hann kom liðinu upp í fyrra og eins og ég segi þá held ég að þeir geti spjarað sig vel í fyrstu deildinni í sumar."
Nær að einbeita sér betur
Þegar KFA sýndi áhuga á því að fá þig til starfa í vetur, varstu þá strax spenntur og klár í þetta?
„Mér finnst gaman að þjálfa en það þurfa að vera réttu kringumstæðurnar og aðstæðurnar. Þeir heyrðu í mér á sínum tíma eftir að ég var rekinn frá Njarðvík, þá reyndar sem Fjarðabyggð. Það datt upp fyrir á sínum tíma."
„Ég hef gaman að þessu og af hverju þá ekki að láta slag standa? Mér finnst ekkert mál að fara austur, finnst það bara gaman. Þegar maður er á staðnum þá nær maður að einbeita sér að þessu heldur en þegar maður er alltaf í bænum. Ég er búinn að ná að einbeita mér miklu betur að þessu í vetur en ég gerði kannski hjá Njarðvík. Þá var maður að vinna og allt í einu var klukkan orðin fimm og þú þarft að fara keyra brautina á æfingu."
Ekki í boði að fara hætta þá - Sá fullt af möguleikum
„Það var búið að blunda í mér að taka allavega eina þjálfun í viðbót og sjá hvert það leiðir mann. Eins og ég sagði áðan var leiðinlegt að enda þetta þannig að fá ekki að klára mótið, í bullandi séns á að fara upp og með fínan árangur. Að ætla að fara hætta þá var eiginlega aldrei í boði."
„Svo kom þetta upp, ég sá að það var hægt að bæta margt, fullt flott búið að gera, sérstaklega hjá Leikni Fáskrúðsfirði undanfarin 6-7 ár og líka hjá Fjarðabyggð. Þetta var sameinað og þá kemur smá losarabragur á þetta í byrjun, þetta þarf aðeins að smella saman og gerist kannski ekki á einum degi."
„Fyrir mér, ef ég horfi á leikmannahópinn í fyrra, þá var þetta alltof góður hópur til að enda í 10. sætinu. Ég sá fullt af möguleikum í þessu, fullt af góðum leikmönnum og ég fór strax í að fá Unnar og Arek aftur til baka til að mynda aðeins þéttari hóp og vera með íslenska stráka á besta aldri. Það var eitthvað sem ég held að hafi vantað í fyrra."
„Þegar ég var búinn að sjá aðstöðuna sem liðið er með og getur verið með, allt sem hægt er að gera, þá fannst mér ekki spurning að taka við þessu."
„Fyrir utan það, þá eiga að vera og eru fullt af peningum þarna. Þeir mættu kannski skila sér aðeins betur inn í fótboltann. En það þarf kannski að ná betri árangri til þess að það gerist."
„Mörgum kom á óvart að ég tók þetta, en þetta er bara þjálfarastarf. Hingað til hefur þetta verið mjög gott. En þótt þetta líti ágætlega út og við erum búnir að vera fínir, þá er fyrsti leikur í Íslandsmóti ekki byrjaður og þetta snýst um það. Þetta snýst ekki um að við rúlluðum yfir KF í deildabikarnum um daginn, það gefur okkur ekkert þegar við mætum þeim í fyrsta leik 6. maí. Ef þeir vinna okkur þá telur þessi 4-0 sigur ekki mikið."
Búsettur í bænum en verður mest fyrir austan í sumar
Verðuru fyrir austan í allt sumar?
„Ég verð mest fyrir austan, fer eitthvað í bæinn þess á milli. Stundum er vika á milli leikja og þá gæti ég farið í bæinn. Það er ekki alveg komið í ljós, ég er með lítinn strák og þau verða eitthvað hjá mér líka. En ég verð auðvitað meira fyrir austan en ég er búinn að vera í vetur."
Allt gert til að geta spilað úti í sumar
KFA, og Leiknir F. þar á undan, hafa leikið heimaleiki sína í Fjarðabyggðahöllinni. Hvernig lítur það út fyrir sumarið?
„Það er ekki stefnan að spila þar í sumar. Það eru einhverjir leikmenn sem hafa spilað þar í mörg ár og vilja bara vera þar áfram, en ég vil það ekki. Ég tel að við séum með það gott lið að spilamennskan þurfi ekki bara að velta á því að við séum að spila inni. Það hefur sýnt sig með þetta lið að útileikirnir hafa verið vandamál og hefur verið þannig líka í vetur. Leikirnir gegn Völsungi og Magna eru einu leikirnir sem við höfum spilað úti."
„Ég vil bara spila við betri aðstæður, grasið þarf auðvitað að vera í lagi, en stefnan er að spila á Eskjuvellinum frá og með þriðja heimaleik. Fyrstu tveir verða klárlega inni því það er ekkert annað í boði. En stefnan er að spila á móti Hetti/Hugin 2. júní á grasinu. Þar er miklu betri aðstaða fyrir leikmenn, búningsaðstaða og aðstaða fyrir áhorfendur."
„En ef grasið er hræðilegt þá verðum við að spila inni, við erum bara með þessa tvo möguleika. En það verður allt gert til að koma því í lag og viljum bæði spila og æfa úti í sumar - eins og maður á að gera á sumrin á Íslandi. Það er ekki eins og veturinn sé skemmtilegur, þú vilt geta verið úti á sumrin," sagði Mikki að lokum.
Athugasemdir



