Kristinn Steindórsson átti fínan leik fyrir lið Breiðabliks í dag sem vann Fylki 2-0 í Pepsi Max-deild karla.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 0 Fylkir
Kristinn lagði upp fyrra mark Breiðabliks á Árna Vilhjálmsson en það kom eftir aðeins 40 sekúndur í seinni hálfleik.
„Þetta var mjög góður sigur, fyrri hálfleikur var svolítið lokaður og við vorum ekki að finna lausnir á þeirra þétta varnarleik en þetta losnaði í seinni hálfleik og það var gott að fá mark strax. Eftir það vorum við með þetta og hefðum getað sett fleiri," sagði Kristinn.
„Ég hef þekkt Árna lengi og ég vissi að þegar ég tók boltann með mér að þeir myndu sennilega færa sig yfir í þá átt og ég gæti ég sett hann til baka á Árna sem væri einn í gegn."
„Að fá mark er högg fyrir þá og gefur okkur sjálfstraust og ætli Janssen bóluefnið hafi ekki farið úr okkur í hálfleik og við vorum aðeins sprækari."
Kristinn hefur verið að koma sterkur inn í lið Breiðabliks og er ánægður á þeim stað sem hann er á í dag.
„Þetta er mitt lið og auðvitað er maður í þessu til að fá að spila og vera í byrjunarliðinu. Ef ég lendi í því að vera á bekknum þá ætla ég ekki að kvarta, ég veit að ef ég spila minn leik þá geri ég tilkall og fæ að spila."
Athugasemdir