Þorlákur Árnason þjálfari ÍBV hefði viljað fara með öll þrjú stigin úr Mosfellsbænum en þeir gerðu 0-0 jafntefli við Aftureldingu í dag.
Lestu um leikinn: Afturelding 0 - 0 ÍBV
„Þetta var bara stál í stál. Við fengum náttúrulega besta færið í fyrri hálfleik þannig manni fannst eins og við ættum að vera yfir. Það var samt svona jafnræði með liðunum. Við fengum náttúrulega urmul af færum í seinni hálfleik til þess að klára leikinn þannig að maður er pínu svekktur að hafa ekki klárað þetta."
Þetta var nýliðaslagur og ef þessi lið ætla sér að halda sér í deildinni getur reynst slæmt að sigra ekki hina nýliðina. Þorlákur horfir hinsvegar ekki á það þannig og segist bera mikla virðingu fyrir Aftureldingu.
„Ég er ekkert að ætlast til þess að við séum að vinna þá alla daga vikunnar. Það var sannarlega í boði í dag, fyrst og fremst af því við áttum bara mjög góðan leik. Þess vegna er það svekkjandi að hafa ekki náð að koma boltanum inn."
Félagsskipta glugginn er opinn en það gæti vel verið að ÍBV bætir við leikmönnum áður en hann lokar.
„Á meðan glugginn er opinn þá skoðum við það. Sérstaklega þar sem við settum liðið svolítið saman á síðustu stundu. Þannig það er ekkert í pípunum en við munum klárlega skoða það."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.