Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 13. maí 2014 10:00
Mist Rúnarsdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stundum þarf maður að heita Daníel
Mist Rúnarsdóttir
Mist Rúnarsdóttir
Þetta er Chelsea-skrifstofa en aðspurðir um Arsenal merkinguna svöruðu eigendur því að einn meðeigandinn (sem ekki væri á svæðinu) héldi með Arsenal og hafi því fengið að merkja svolítinn hluta af húsnæðinu
Þetta er Chelsea-skrifstofa en aðspurðir um Arsenal merkinguna svöruðu eigendur því að einn meðeigandinn (sem ekki væri á svæðinu) héldi með Arsenal og hafi því fengið að merkja svolítinn hluta af húsnæðinu
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Efnilegar namibískar fótboltastelpur
Efnilegar namibískar fótboltastelpur
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Hressir malavískir piltar
Hressir malavískir piltar
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Það myndaðist löng biðröð fyrir utan þjóðarleikvanginn þegar Malaví tók á móti Botswana í U20 karla
Það myndaðist löng biðröð fyrir utan þjóðarleikvanginn þegar Malaví tók á móti Botswana í U20 karla
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Minibusarnir í Malaví eru oft skemmtilega merktir. Yfirleitt skarta þeir merkjum stórra evrópskra liða en þessi merking var svolítið óvanaleg, sérstaklega þar sem kvennafótbolti er ekki sýnilegur
Minibusarnir í Malaví eru oft skemmtilega merktir. Yfirleitt skarta þeir merkjum stórra evrópskra liða en þessi merking var svolítið óvanaleg, sérstaklega þar sem kvennafótbolti er ekki sýnilegur
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Gallharður stuðningsmaður Man Utd í Cape Maclear er með þessa glæsilegu útskornu hurð á húsinu sínu
Gallharður stuðningsmaður Man Utd í Cape Maclear er með þessa glæsilegu útskornu hurð á húsinu sínu
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Fótbolti hefur aldrei verið langt undan á þeim tíma sem ég hef verið að þvælast um Afríku. Allt í kring eru tilvísanir í fótbolta. Fjölmargir barir, veitingastaðir, búðir, rakarastofur og bílaþvottastöðvar heita til dæmis eftir fótboltaliðum og mörg farartæki eru merkt evrópskum stórliðum. Sem fótboltanörda finnst mér því æðislegt að rölta bara um borgir og þorp og skoða hvernig boltamenningin kemur fyrir sjónir.

Fótbolti er líka mikið spilaður og við alls kyns aðstæður. Vellirnir geta verið allt frá leðjupolli og upp í glæsilega grasvelli og boltarnir allt frá samanvöfðu dagblaði til hágæða leðurbolta. Mér finnst frábært hvað fótboltinn er sýnilegur en sakna þess þó sárlega að sjá fótboltastelpur.

Ég hóf Afríkuferðina í Namibíu þar sem ég vann að lokaverkefni mínu í mannfræði en það tengist knattspyrnu kvenna. Konur eru þar í miklum minnihluta iðkenda en þó hefur verið mikil fjölgun á síðustu árum og það gætu verið spennandi tímar framundan. Eftir að hafa yfirgefið Namibíu hef ég ekki gert sérstaka leit að fótboltastelpum en reyni yfirleitt að fylgjast með þegar ég geng fram á fótboltaleik. Hingað til hef ég þó ekki hitt neinar fótboltastelpur.. Eða það hélt ég.

Ég var að þvælast í bænum Karonga í Malaví þegar ég sá hóp drengja leika sér í fótbolta á litlum grasbletti. Þeir voru þarna berfættir og með sinn heimatilbúna bolta. Það verður að gefa þeim hrós fyrir frumlegheit og sjálfsbjargarviðleitni en boltinn var vafinn saman úr allskonar dóti. Til dæmis plasti, pappír og meira að segja smokkum. Efnið var svo mótað saman í bolta og fest saman með teygjum.

Það er að mörgu leyti sorglegt að fylgjast með krökkum leika sér við þessar aðstæður en að sama skapi yndislegt. Þetta kallar maður að gera gott úr því sem maður hefur, endurnýta það sem margir myndu kalla rusl og njóta þess að leika sér með vinum sínum.

Eftir að ég hafði fylgst með í stutta stund kom til mín maður og spurði hvort ég spilaði fótbolta. Ég sagðist nú ekki gera það lengur heldur væri ég þjálfari. Það fannst honum áhugavert. Sérstaklega þegar ég sagði honum að ég þjálfaði stelpur heima á Íslandi. Hann leit í kringum sig og sagðist svo ætla að segja mér leyndarmál. Ég varð svolítið hissa en fylgdi honum aðeins til hliðar og gat ekki ímyndað mér hvaða leyndarmáli hann myndi treysta mér fyrir.

Maðurinn benti þá á einn guttann sem var að spila. „Sérðu þennan í bláa bolnum?“ spurði hann og ég jánkaði. Ég hafði tekið eftir honum áður en hann var virkilega góður á boltanum og með gott auga fyrir samspili.

„Þetta er dóttir mín“, sagði hann. Þessari miklu uppljóstrun fylgdu auðvitað hrókasamræður. Maðurinn býr sumsé í nálægu þorpi en kemur reglulega til Karonga til að vinna. Dóttir hans spilar við stráka í þorpinu sínu en að sögn föðursins fær hún ekki nógu mikið út úr því. Bæði af því að hún er betri en strákarnir þar og af því að þeir vilja ekki spila á móti henni af fullum krafti. Þar sem strákarnir í Karonga halda að hún sé strákur þá spila þeir á móti henni af hörku og eru ekkert að veita henni óumbeðna sérmeðferð.

Þetta fannst mér áhugavert að heyra og velti því fyrir mér hvort að það hafi mögulega leynst fleiri stúlkur með svipaðar sögur í þeim „drengjahópum“ sem ég hef séð spila til þessa. Ég spjallaði aðeins meira við föðurinn og forvitnaðist um aðstæður stúlkna til að spila þarna nyrst í Malaví. Hann sagði að það væru nokkrir skólar og frjáls félagasamtök sem héldu úti einhverju starfi en að það hefðu þó ekki öll börn aðgang að því vegna búsetu sinnar. Einnig bætti hann við að það væri því miður ennþá svolítið gamalsdags viðhorf ríkjandi til stúlkna í fótbolta. Oft leyfa foreldrar þeim ekki að æfa og þær sem það mega fá oft ekki að vera með strákunum. Þær áhugasömu sem eru frá fámennum þorpum þurfa því stundum að láta sér nægja að æfa sig einar.

Faðirinn sagði þó að hlutirnir væru að breytast og að hann sæi fram á bjarta framtíð fyrir fótboltakonur í Afríku. Það hefur verið mikill uppgangur í knattspyrnu kvenna víða í Afríku sunnan Sahara og vonandi fær hún Maria frá Malaví tækifæri til að sinna boltanum af krafti í framtíðinni.

Það er svosem ekkert svo langt síðan að knattspyrna kvenna fór að blómstra heima á Íslandi og það er kannski skondið að segja frá því að sumarið 1990 tók ég sjálf upp nafnið Daníel í heilt sumar til þess að fá að spila fótbolta með strákunum í hverfinu. Stelpur máttu nefnilega ekki vera með því þær voru svo lélegar í fótbolta. Daníel var hinsvegar alltaf fínasti liðsstyrkur. Svo man ég eftir áhugaverðri yfirlýsingu frá ónefndum kennara á fyrsta þjálfaranámskeiðinu mínu en hann tilkynnti hópnum að konur kynnu ekki að skalla. Nema kannski Magga Óla. Jú, hún væri sú eina.

Það eru enn einstaka risaeðlur á Íslandi (áðurnefndur kennari er ekki lengur í hópi slíkra) en fótboltakonurnar okkar eru heldur betur búnar að troða sokk ofan í þær á undanförnum árum og munu halda áfram að gera það í sumar.

Talandi um það. Boltinn er að rúlla af stað. Pepsi byrjar í kvöld og 1. deildin á föstudag. Þetta verður flott boltasumar. Það eru skemmtilega mörg spurningarmerki fyrir keppni í báðum deildum og því vonandi mikil spenna framundan. Vá hvað ég hlakka til!
Athugasemdir
banner
banner
banner