„Góður sigur, við bara mættum af krafti til leiks hérna í byrjun og náðum inn þessum mörkum. Mér fannst við bara sigla þessu þægilega, ef ég á að vera hreinskilinn. Mér fannst mótspyrnan ekki vera mikil í dag hjá KR, við komum bara grimmir inn í fyrri hálfleikinn og settum leikmyndina upp þannig. Við komumst yfir og svo var mótspyrnan hjá KR þannig að það kom mér dálítið á óvart að þeir voru ekki að reyna að setja pressu á að ná í sigurinn. Þetta leit út eins og þeir hafi sætt sig við tap eftir fyrri hálfleikinn."
Sagði Sölvi Geir Ottesen aðstoðarþjálfari Víkinga í viðtali við Stöð 2 Sport eftir að liðið hans sigraði KR 3-0 í dag. Leikmenn voru eitthvað að skipta um stöður í miðjum leik, meðal annars í fyrri hálfleik þar sem Ari Sigurpáls og Danijel Dejan Djuric skiptu um kanta.
„Bara að breyta aðeins til, kannsi Danni að koma honum aðeins meira inn í leikinn í fyrri hálfleik þó við vorum mjög sáttir með Ara þarna út á hægri kanti. Í fyrsta markinu voru þeir frekar hátt uppi með vængbakverðina sína og við gerðum vel í þessu að skipta honum yfir. En það var svo sem engin taktík, meira bara að koma Danna í gang."
Arnar Gunnlaugsson aðalþjálfari Víkinga var í leikbanni í þessum leik og var því ekki á hliðarlínunni. Sölvi segir að hann hafi ekki verið í neinum samskiptum við hann á meðan leiknum stóð yfir heldur að hann hafi verið í samskiptum við leikgreinanda sem hafði einhverja punkta fyrir liðið.
Fótbolti.net tók einnig viðtal við Sölva en vegna tæknilegra örðugleika var ekki hægt að birta það viðtal.