Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   mán 14. apríl 2025 12:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það síðasta sem Rúben Amorim þurfti"
Altay Bayindir.
Altay Bayindir.
Mynd: EPA
Andre Onana.
Andre Onana.
Mynd: EPA
Altay Bayindir fékk tækifæri í markinu hjá Manchester United gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann gerði ekkert til að sanna það að hann ætti fleiri tækifæri skilið.

Bayindir átti frekar ömurlegan dag og fékk fjögur mörk á sig í slæmu tapi.

„Þetta var það síðasta sem Rúben Amorim, stjóri Manchester United, þurfti á að halda," segir í grein BBC eftir leikinn.

Amorim ákvað að taka Andre Onana úr markinu og gefa Bayindir tækifæri. Það var ekki skrítið þar sem Onana hefur ekki verið að standa sig vel upp á síðkastið. Hann gerði tvö slæm mistök í 2-2 jafntefli gegn Lyon í Evrópudeildinni í síðustu viku en fyrir leikinn sagði Nemanja Matic, fyrrum miðjumaður Man Utd, að Onana væri einn versti markvörður í sögu United.

Framundan hjá Man Utd er afar mikilvægur leikur gegn Lyon í Evrópudeildinni. Þetta er leikur sem gæti þannig séð bjargað tímabilinu fyrir liðið. Og Amorim er með hausverk. Hvað á hann að gera í markvarðarmálunum?

„Þetta lá í loftinu," segir Paul Robinson, fyrrum landsliðsmarkvörður Englands, um það að Onana hafi verið tekinn út úr liðinu. Hann hefur gert fjöldamörg stór mistök eftir að hann var keyptur til Man Utd fyrir síðasta tímabil og Amorim gat ekki lengur treyst á hann.

Robinson býst ekki við því að Onana komi inn í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Lyon.

„Þú tekur hann ekki út úr liðinu í einn leik, setur hann aftur inn nokkrum dögum síðar og býst við því að hann verði upp á sitt besta. Ég býst ekki við að hann spili á fimmtudaginn," sagði Robinson en það verður að koma í ljós.
Athugasemdir
banner
banner