Það komu tveir Íslendingar við sögu í MLS deildinni í nótt þar sem Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði eina mark liðsins í slæmu tapi á heimavelli gegn Vancouver Whitecaps.
Þetta er annað markið sem Nökkvi skorar í síðustu fjórum leikjum St. Louis sem þarf sárlega á góðum markaskorara að halda þessa dagana. Nökkvi þarf að halda áfram að skora mörk en hann hefur í heildina aðeins skorað þrisvar sinnum í 29 keppnisleikjum frá komu sinni til Bandaríkjanna.
Nökkvi spilaði nánast allan leikinn í fremstu víglínu hjá St. Louis, sem fékk 16 marktilraunir í leiknum en aðeins 3 þeirra hæfðu rammann. Heimamenn í St. Louis héldu boltanum þá 73% af leiknum en töpuðu þrátt fyrir það með miklum mun.
Lokatölur urðu 1-4 fyrir Vancouver og er St. Louis aðeins komið með 22 stig eftir 23 umferðir af deildartímabilinu og á litla möguleika á að komast í umspilssæti fyrir úrslitakeppnina.
Dagur Dan Þórhallsson lék þá allan leikinn er Orlando City vann góðan útisigur gegn New England Revolution.
Heimamenn í New England leiddu 1-0 í leikhlé en Orlando kom til baka með þremur mörkum í síðari hálfleik til að sigra 1-3. Dagur Dan lék allan tímann í hægri bakverði en hann er mikilvægur hlekkur hjá Orlando og hefur komið að fimm mörkum í 23 leikjum það sem af er tímabils.
Orlando er í flottri stöðu fyrir úrslitakeppnina eftir mikla sigurhrinu síðustu vikur. Dagur og félagar eru búnir að sigra fjóra af síðustu fimm leikjum í deildinni og eiga 30 stig eftir 23 umferðir.
St. Louis City 1 - 4 Vancouver Whitecaps
0-1 B. White ('10)
1-1 Nökkvi Þeyr Þórisson ('27)
1-2 B. White ('44)
1-3 R. Raposo ('64)
1-4 F. Picault ('92)
New England Revolution 1 - 3 Orlando City
1-0 G. Vrioni ('23)
1-1 F. Torres ('51)
1-2 R. Enrique ('59)
1-3 F. Torres ('81)
Athugasemdir