„Ég er svekktur að tapa. Það var óþarfi að tapa þessum leik," sagði Sverrir Ingi Ingason, varnarmaður íslenska landsliðsins, eftir 2-4 tap gegn Tyrklandi í Þjóðadeildinni í kvöld.
Það var mikið talað um dómgæsluna eftir leikinn en hún var vafalaust skrítin.
„Ég var nú bara að sjá atvikið þegar Orri á skot og hann ver á línunni. Hann gerir sig stærri með hendinni. Hann er búinn að dæma vítaspyrnur eftir hendi fyrir þá og mér fannst þetta skrítin ákvörðun vægast sagt. Við eigum líklega að fá víti og rautt spjald á þá. Ég held að dómgæslan sé yfirleitt ekki með okkur Íslendingum í liði."
„Við þurfum samt sem áður að læra af þessu. Það er algjör óþarfi að fá á okkur fjögur mörk. Það á að vera nóg að skora tvö gegn Tyrklandi," segir Sverrir.
„Við erum oft með góða frammistöðu en við erum ekki að sækja stig í takt við frammistöðuna. Það er vissulega svekkjandi. Tyrkirnir eru með hörkulið og þeir voru í undanúrslitum á EM. En þegar þú skorar tvö mörk á heimavelli, þá á það að vera nóg. Við þurfum að laga til í varnarleiknum."
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir