Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   mið 15. janúar 2025 23:21
Brynjar Ingi Erluson
Jafnt í grannaslag - Kolbeinn lék hálfleik í bikarsigri
Sverrir Ingi spilaði í stórslag í gríska bikarnum í kvöld
Sverrir Ingi spilaði í stórslag í gríska bikarnum í kvöld
Mynd: Getty Images
Kolbeinn Birgir Finnsson og félagar í hollenska liðinu Utrecht eru komnir áfram í 8-liða úrslit bikarsins eftir 2-1 sigur liðsins á Waalwijk í kvöld.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur verið að fá tækifærin í bikarnum og var hann enn og aftur í byrjunarliði í keppninni í kvöld.

Bakvörðurinn lék fyrri hálfleikinn en honum og fjórum liðsfélögum hans var skipt af velli í hálfleik.

Sebastien Haller, fyrrum leikmaður West Ham og Ajax, kom inn á og skoraði tvö mörk til að skjóta Utrecht áfram í næstu umferð. Mögnuð innkoma hjá honum.

Sverrir Ingi Ingason var þá í vörn Panathinaikos sem mætti erkifjendum og grönnum þeirra í Olympiakos í 8-liða úrslitum gríska bikarsins.

Tveggja leikja rimmur eru spilaðar á þessu stigi keppninnar, en fyrri leikurinn fór fram á Ólympíuleikvanginum í Aþenu, sem hefur verið heimavöllur Panathinaikos á þessu tímabili, en félagið er í miðjum framkvæmdum á nýjum heimavelli.

Leiknum í kvöld lauk með 1-1 jafntefli og spilaði Sverrir allan tímann í vörninni. Síðari leikurinn fer fram 5. febrúar og mun sigurvegarinn mæta AEK.

Hörður Björgvin Magnússon var ekki með í kvöld en hann er að jafna sig af meiðslum, Áætlað er að hann verði aftur klár í slaginn í mars eða apríl.
Athugasemdir
banner
banner
banner