Sölvi Geir kemur til með að stýra Víkingum gegn Panathinaikos
Arnar Gunnlaugsson mun ekki stýra Víkingi í Evrópuleikjunum gegn Panathinaikos í næsta mánuði. Hann er tekinn við sem landsliðsþjálfari Íslands.
Hann staðfesti það í samtali við Fótbolta.net í dag að hann verði ekki á hliðarlínunni gegn Panathinaikos í umspilinu í Sambandsdeildinni. Sölvi Geir Ottesen, verðandi þjálfari Víkings, fær það verkefni.
Hann staðfesti það í samtali við Fótbolta.net í dag að hann verði ekki á hliðarlínunni gegn Panathinaikos í umspilinu í Sambandsdeildinni. Sölvi Geir Ottesen, verðandi þjálfari Víkings, fær það verkefni.
„Ég held að það sé kominn tímapunktur til að slíta naflastrenginn núna," sagði Arnar í viðtalinu.
„Það kom aldrei til tals (að hann myndi stýra liðinu gegn Panathinaikos). Ég held að það hefði verið slæmt fyrir alla aðila ef það hefði gerst. Það er ærið verkefni að koma sér inn í starfið hjá KSÍ og það er ærið starf fyrir næsta þjálfara Víkings að koma sér inn í næsta verkefni."
„Víkingar eru að spila gegn Panathinaikos, ekki á móti einhverju hverfisliði í Reykjavíkurmótinu. Það krefst mjög góðs undirbúnings," segir Arnar.
Fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Arnars verða umspilsleikir við Kósovó um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn verður á Fadil Vokrri Stadium í Pristina 20. mars og seinni leikurinn á leikvangi Murcia á Spáni, Stadium Enrique Roca.
Athugasemdir