Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   fim 16. febrúar 2023 14:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Í leit að nýju félagi á Íslandi - Segist ekki biðja um himinhá laun
Í leik með ÍA á síðustu leiktíð.
Í leik með ÍA á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðasta tímabil var það erfiðasta á ferlinum.
Síðasta tímabil var það erfiðasta á ferlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Val sumarið 2021.
Í leik með Val sumarið 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilaði eitt tímabil á Skaganum.
Spilaði eitt tímabil á Skaganum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom fyrst hingað til lands árið 2016 til að spila með FH.
Kom fyrst hingað til lands árið 2016 til að spila með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað næst?
Hvað næst?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Í augnablikinu er ég án félags og ég vil finna mér félag á Ísland, helst á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenninu," segir Færeyingurinn Kaj Leo í Bartalsstovu í samtali við Fótbolta.net.

„Ég er að reyna að finna mér félag svo ég geti komið mér á fullt aftur."

Kaj Leo, sem hefur spilað á Íslandi frá 2016 er án félags eftir að hafa leikið með ÍA síðasta sumar.

„Ég hef verið að æfa einn að mestu. Undanfarna daga hef ég verið að æfa með Gróttu því ég þekki Gunnar (Jónas Hauksson) sem spilar þar. Hann spurði þjálfarann hvort ég mætti æfa með þeim og ég hef verið að gera það síðustu daga."

Erfiðasta tímabilið á ferlinum
Kaj Leo átti ekki sitt besta tímabil á ferlinum er ÍA féll úr Bestu deildinni síðasta sumar. Hann spilaði alls 24 deildarleiki og skoraði þrjú mörk. Hann segir að tímabilið hafi verið sitt erfiðasta á ferlinum.

„Þetta var klárlega erfiðasta tímabilið á ferlinum mínum. Ég hef spilað í mörgum liðum í mörgum löndum, en þetta var erfiðasta tímabilið," segir Kaj Leo en liðinu gekk illa að ná í góð úrslit inn á vellinum.

„Við byrjuðum ágætlega og ég skoraði nokkur mörk. Byrjunin var ágæt en svo kom langur erfiður kafli þar sem okkur tókst ekki að vinna marga leiki. Það gekk ekkert upp, við spiluðum ekki vel, við fengum á okkur mikið af mörkum og skoruðum lítið. Þetta var dimmur tími og erfiðasti kaflinn á mínum ferli."

Hann gerði upprunalega samning út 2023 við ÍA en ákveðið var að rifta þeim samningi eftir síðustu leiktíð. Kom það einhvern tímann til greina að hann yrði áfram á Skaganum?

„Ég ræddi við þjálfarann hjá ÍA eftir tímabilið og líka áður en tímabilið kláraðist. Hann sagði að þeir vildu einbeita sér að heimamönnunum og byggja þetta aftur upp eftir fallið. Þeir vilja gefa ungu strákunum fleiri tækifæri og reyna komast aftur upp þannig. Ég vil spila í Bestu deildinni, þó ég segi ekki alfarið nei við Lengjudeildinni. Það var líklega best fyrir báða aðila að leiðir myndu skilja."

Heimili mitt er Ísland
Kaj Leo er búinn að setjast að á Íslandi og hér líður honum vel, þó veðrið sé ekki alltaf gott. Viðtalið fór fram á ensku en Kaj kveðst vera búinn að ná ágætis tökum á íslenskunni.

„Heimili mitt er Ísland. Fjölskyldan mín elskar að vera hér og þetta er okkar heimili. Þess vegna vil ég finna félag hérna eins fljótt og mögulegt er."

„Ég er frá Færeyjum og slæmt veður er ekki eitthvað sem er nýtt fyrir mig. Við erum ekki með neinar innanhúshallir og við þurfum alltaf að æfa úti. Slæmt veður er ekkert nýtt fyrir mig. Ísland er svo líkt Færeyjum að mörgu leyti. Mér hefur liðið eins og heima hjá mér frá fyrsta degi."

Það eru nokkrir aðrir færeyskir fótboltamenn sem spila hér á landi. Það eru til að mynda tveir í Breiðabliki núna, Patrik Johannessen og Klæmint Olsen. Þá leikur Hallur Hansson með KR en hann er meiddur núna.

„Það er alltaf gott að hafa Færeyinga í kringum sig, sérstaklega ef þú þekkir þá. Ég hef þekkt þessa stráka í mörg ár. Við spilum í landsliðinu saman og ég hef þekkt þá í mjög langan tíma. Þegar þú ert í fríi þá er gott að hitta færeyska vini og tala sitt eigið tungumál," segir Kaj Leo en hann segir að færeyskir fótboltamenn séu áhugasamir um íslenska boltann.

Það er ekki þannig, alls ekki
Auk þess að spila með ÍA þá hefur Kaj Leo einnig leikið með FH, ÍBV og Val hér á landi. Hann hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Hann lék með Val sumarið 2021 en eftir að samningur hans rann þar út þá æfði hann með Íslands- og bikarmeisturum Víkings.

„Ég æfði með Víkingum eftir að samningur minn hjá Val endaði. Ég ræddi mikið við Arnar (Gunnlaugsson) og hann var mjög jákvæður. Hann sagði við mig að hann vildi fá mig í Víking en á þeim tíma voru þeir með það í forgangi að fá miðvörð. Þeir ætluðu að nota mestan peninginn í það, og þeir fengu svo Oliver Ekroth," segir Kaj Leo en hann skoraði meðal annars stórfínt mark í æfingaleik með liðinu.

„Ég spilaði með Víkingi í æfingaleik gegn ÍA þar sem ég skoraði. Eftir það fór ég aðeins í viðræður við Víking. Ég ræddi líka við Pablo (Punyed) sem hafði talað við þjálfarann áður en samningur minn endaði hjá Val. Arnar sagðist vilja fá mig en það var ekki nægilega mikið fjármagn til þess. Það var ekki af því að ég vildi fá alltof mikið borgað. Það var vegna þess að þeir voru með það í forgangi að fá miðvörð."

Það var umræða um það í fyrra að Kaj Leo væri að biðja um himinháar upphæðir og væri með miklar launakröfur, en hann segir svo ekki vera.

„Ég heyrði um það og ég talaði líka við Arnar um það. Hann sagði mér að hugsa ekki um þessar greinar því fólk skrifar um það sem það vill skrifa og þú getur ekkert gert í því. Í augnablikinu held ég að sum félög séu ekki einu sinni að íhuga að gera tilboð vegna þess að þau hafi heyrt einhvers staðar að ég sé að biðja um alltof mikinn pening. Það er ekki þannig, alls ekki," segir Kaj. Hann kveðst vera með raunhæfar kröfur og segist hungraður að sýna úr hverju hann er gerður eftir erfitt tímabil.

Lærir að verða rakari
Utan fótboltans er Kaj í námi en hann er að læra að verða rakari. Hann stefnir á að vinna við það ásamt því að spila fótbolta þegar hann lýkur náminu.

„Ég er að læra að verða rakari. Ég er í augnablikinu í starfsnámi á hárgreiðslustofu í Reykjavík. Ég er að reyna að fá starfsréttindi," segir Kaj.

„Ég hef bara spilað fótbolta í fullu starfi í mörg ár núna og ég hef aldrei vitað hvað ég vil gera þegar ferlinum lýkur. Ég hef alltaf haft áhuga á hárgreiðsluiðnaðinum, ég hef horft á mikið af myndböndum á Youtube og þess háttar. Ég fór að tala við mína hárgreiðslumenn og þeir hvöttu mig til að fara í skóla. Ég ákvað að gera það og ég nýt þess mikið."

„Ég hef verið í skólanum í tvö ár og er núna að vinna á hárgreiðslustofunni í hálft ár. Svo á ég eitt ár eftir af skólanum eftir það."

„Ég hef verið heppinn með meiðsli á mínum ferli og ég vil halda ferli mínum áfram. Vonandi er þetta eitthvað sem ég get unnið með fótboltaferlinum. Sem rakari þá get ég ákveðið minn vinnutíma og þú þarft ekki endilega að vinna frá níu til fimm. Ég vil spila fótbolta í mörg ár til viðbótar," sagði þessi öflugi leikmaður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner