Árni Vilhjálmsson gerði sigurmark Breiðabliks í 2-1 sigrinum á ÍA í Pepsi Max-deild karla í kvöld en þetta var stórt mark í titilbaráttu Blika.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 ÍA
Framherjinn knái skoraði markið úr vítaspyrnu á 83. mínútu eftir að Óttar Bjarni Guðmundsson braut af sér innan teigs.
Blikar sóttu mikið á Skagamenn en áttu þó í vandræðum með að klára færin.
Skagamenn fóru að liggja til baka eftir að þeir komust yfir áður en Viktor Karl Einarsson en sigurinn hafðist og var Árni ánægður með útkomuna.
„Þetta var þolinmæðisvinna í dag. Við þurftum að vera þolinmóðir og gefast ekki upp og halda áfram því sem við vorum að gera. Við gerðum það og uppskárum þrjú stig," sagði Árni við Fótbolta.net eftir leik.
Hann var öruggur á punktinum þegar kallið kom og gerði sigurmarkið en Árni var fastur á því að þetta hafi verið brot.
„Ég fékk putta í augað, hvort þetta var viljaverk eða ekki. Það er ekki þægilegt að fá putta í augað og dómarinn virðist hafa séð það sem betur fer því það var búið að vera ansi mikið af höndum inn í teig, þannig fyrir mér er þetta klárt brot."
Skagamenn vörðust mikið eftir að Blikarnir fóru að sækja hratt á þá en leikmenn Blika höfðu þó á tilfinningunni að það væri mark á leiðinni.
„Ég held að þetta þróist miklu meira þannig þegar þeir komast yfir, þeir eru fyrir neðan okkur í deildinni og við erum góðir á heimavelli og svo komast þeir snemma yfir. Við förum að sækja á þá og þá enda þeir í algerum blokkum, veit ekki hvort það var uppleggið en þetta þróaðist þannig."
„Þú hefur tilfinninguna á vellinum þegar það dettur og bíður bara eftir því. Það datt og við uppskárum þrjá punkta."
„Við vorum að ræða þetta áðan. Þetta var einn af þessum dögum þar sem þú tekur alltaf sama hlaup og boltinn fór ekki þangað sem þú bjóst við að hann færi en svo ákveður þú að prófa eitthvað annað hlaup einu sinni og þá fór boltinn akkurat þar sem þú áttir að vera," sagði hann ennfremur.
Blikar eru í ágætri stöðu í toppbaráttunni. Liðið er í 3. sæti með 32 stig, með leik til góða á Val sem er í efsta sætinu með 36 stig.
„Við að sjálfsögðu erum í toppbaráttu. Það vita það allir en þegar þú ert að fara inn í leik, skiptir ekki máli hvað gerist eftir nokkrar vikur. Þú ert bara að fara að spila leikinn, sama hvaða lið það er. Eins og staðan er í dag erum við hrikalega ánægðir að ná í þrjá punkta og svo eigum við leik gegn KR á laugardaginn sem eru búnir að vera að standa sig vel og við verðum að vera klárir í það," sagði hann ennfremur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir