Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 16. ágúst 2022 22:11
Ívan Guðjón Baldursson
Estupinan kominn til Brighton (Staðfest)
Mynd: EPA

Brighton er ekki lengi að hlutunum á leikmannamarkaðinum og er búið að krækja sér í vinstri bakvörð til að fylla í skarðið sem Marc Cucurella skilur eftir sig.


Sá bakvörður heitir Pervis Estupinan og hefur verið nokkuð eftirsóttur í sumar. Hann var næstefstur á lista hjá Tottenham yfir vinstri bakverði en félagið endaði á að fjárfesta í Destiny Udogie hjá Udinese.

Brighton er talið borga um 15 milljónir punda fyrir Estupinan sem er 24 ára gamall og með 26 landsleiki að baki fyrir Ekvador.

Brighton er að fá mjög gott verð fyrir bakvörðinn vegna þess að Villarreal er í sárri peningaþörf til að ganga frá öðrum kaupum.

Estupinan flytur til Englands eftir tvö ár hjá Villarreal sem keypti hann frá Watford fyrir tveimur árum. Villarreal borgaði 15 milljónir punda fyrir Estupinan og fylgdu árangurstengdar aukagreiðslur með í kaupsamningnum. 

Bakvörðurinn var mikilvægur hlekkur í liði Villarreal á síðustu leiktíð og spilaði 41 leik fyrir félagið.

Það er því þrír leikmenn frá Ekvador í leikmannahópi Brighton í dag. Moises Caicedo, sem er orðaður við Man Utd, og Jeremy Sarmiento voru hjá félaginu fyrir.


Athugasemdir
banner
banner