De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   fim 16. nóvember 2023 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Undankeppni EM: Slóvakar of góðir fyrir Ísland - Sjáðu mörkin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Slóvakía er búið að tryggja sér sæti á Evrópumótinu í Þýskalandi á næsta ári eftir verðskuldaðan sigur á heimavelli gegn Íslandi.

Lestu um leikinn: Slóvakía 4 -  2 Ísland

Orri Steinn Óskarsson gerði vel að taka forystuna fyrir Ísland með skalla eftir langa sendingu frá Guðlaugi Victori Pálssyni snemma leiks.

Slóvakar voru þó sterkari aðilinn og sneru stöðunni sér í vil með mörkum frá Juraj Kucka og vítaspyrnumarki Ondrej Duda, eftir að VAR-teymið taldi Kristian Nökkva Hlynsson brotlegan innan vítateigs og sendi Craig Pawson dómara í skjáinn. Kristian var þá örlítið of seinn í boltann og braut af sér í tilraun sinni til að hreinsa burt.

Lukas Haraslin, leikmaður Sparta Prag, lagði fyrsta mark leiksins upp fyrir Kucka og innsiglaði sigur Slóvaka með tveimur mörkum í upphafi síðari hálfleiks. Haraslin gerði vel að skora en mörkin einkenndust af slökum varnarleik Íslands.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn af bekknum og skoraði með sinni fyrstu snertingu þegar boltinn datt fyrir hann innan vítateigs eftir hornspyrnu Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

Hægt er að sjá mörkin úr leiknum neðst í fréttinni

Meira var ekki skorað og er niðurstaðan verðskuldaður 4-2 sigur Slóvakíu, en Ísland situr eftir í fjórða sæti J-riðils með 10 stig úr 9 leikjum. Strákarnir okkar heimsækja topplið Portúgal í lokaumferðinni, en Portúgalir eru með fullt hús stiga eftir sigur í Liechtenstein í kvöld.

Þar skoruðu Cristiano Ronaldo og Joao Cancelo mörkin, á meðan Lúxemborg lagði Bosníu að velli og endar því í þriðja sæti riðilsins.

Að lokum hafði Svartfjallaland betur á heimavelli gegn Litháen í G-riðli til að halda vonum sínum um annað sætið á lífi. Svartfellingar eru í þriðja sæti og þurfa sigur á útivelli gegn toppliði Ungverjalands í lokaumferðinni til að eiga möguleika á að stela öðru sætinu af Serbíu. Þeir þurfa um leið að treysta á sigur botnliðs Búlgaríu gegn Serbíu.

Slóvakía 4 - 2 Ísland
0-1 Orri Steinn Óskarsson ('17)
1-1 Juraj Kucka ('30)
2-1 Ondrej Duda ('36 , víti)
3-1 Lukas Haraslín ('47)
4-1 Lukas Haraslín ('55)
4-2 Andri Lucas Guðjohnsen ('74)

Lúxemborg 4 - 1 Bosnía
1-0 Mathias Olesen ('6 )
2-0 Gerson Rodrigues ('30 , víti)
3-0 Nihad Mujakic ('55 , sjálfsmark)
3-1 Renato Gojkovic ('94)
4-1 Gerson Rodrigues ('95)

Liechtenstein 0 - 2 Portúgal
0-1 Cristiano Ronaldo ('46 )
0-2 Joao Cancelo ('57 )

Svartfjallaland 2 - 0 Litháen
1-0 Edvin Kuc ('3 )
2-0 Stevan Jovetic ('48 )


Athugasemdir
banner
banner