
Sara Björk Gunnarsdóttir opnaði sig í dag um meðferðina sem hún fékk hjá Lyon þegar hún var ólétt. Sagði hún m.a. frá því að hafa ekki fengið full laun á meðan.
FIFPro, samtök alþjóðlegra atvinnuknattspyrnumanna, óskuðu henni til hamingju með að hafa unnið mál gegn Lyon þar sem hún fær launin greidd sem hún átti inni.
„Við erum ánægð með að hafa aðstoðað við að hafa náð fram sigri í fyrsta máli sinnar tegundar frá því nýjar reglur FIFA varðandi barnsburð voru settar í janúar árið 2021. Það er griðarlega mikilvægt fyrir knattspyrnukonur og knattspyrnu kvenna að þessar nauðsynlegu reglur um barnsburð hafi bæði verið settar og þeim verið framfylgt á alþjóðavísu," segir í yfirlýsingu FIFPro.
Lyon sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í kvöld en hana má lesa í fullri lengd hér fyrir neðan.
„Olympique Lyonnais hefur alltaf verið í fararbroddi í knattspyrnu kvenna og hefur stutt sína liðsmenn á öllum sviðum lífsins."
„Við höfum alltaf virt frönsk lög, sem okkur hefur stundum þótt of ströng í svona málum. Þess vegna höfum við ávallt barist fyrir aukinni vernd leikmanna á þessum sviðum."
„Við höfum gert allt sem við höfum getað til að styðja Söru Björk Gunnarsdóttur í kringum hennar barnsburð, sem og endurkomu hennar á hæsta getustigi."
„Samkvæmt hennar ósk samþykktum við að leyfa henni að fara í fæðingarfrí á Íslandi, heimalandi sínu. Þegar hún sneri aftur til Frakklands, eftir að sonur hennar fæddist, gerðum við allt sem í okkar valdi stóð til að koma henni aftur í sem best líkamlegt form, gera henni nýtt líf sem móður sem allra best, sem og að hún gæti hafið keppni á ný, með aukinni aðstoð, eins og við gerðum síðar með Amel Majri."
„Þetta málefni stendur okkur afar nærri og við erum stolt að hafa hjálpað henni í gegnum sína óléttu og allt þar til hún sneri aftur á völlinn í leik gegn Soyaux, þar sem við leyfðum henni líka að ferðast með barnið sitt og barnfóstru."
„Fyrir nokkrum mánuðum lagði FIFA í fyrsta skipti fram reglugerð varðandi leikmenn sem ala börn á meðan þeirra ferill stendur yfir. Við erum afar ánægð með það."
„Nú gagnrýnir FIFA okkur fyrir að hafa ekki boðið Söru Björk Gunnarsdóttur nýjan samning á meðan hún var í veikindafríi og síðan í fæðingarorlofi, á sama tíma og frönsk lög heimila okkur það ekki, og leikmaðurinn hafði lagt áherslu á það við okkur að fá að dvelja heima á Íslandi, sem við samþykktum. Við erum stolt af því að hafa haft Söru Björk Gunnarsdóttur í lelikmannahópi Olympique Lyonnais. Okkar leiðir skildi aðeins af íþróttalegum ástæðum."
„Ef hún vill aðstoða okkur við að ná fram betri lögum í Frakklandi, þá vildum við gjarna hafa hana með í baráttu okkar, ásamt Amel Majri, um að allt íþróttafólk geti alið börn og snúið aftur til keppni að því loknu."
Notast var við þýðingu Rúv á yfirlýsingu Lyon.