Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 17. febrúar 2021 21:59
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Porto vann - Haaland hetjan í Sevilla
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Twitter
16-liða úrslit Meistaradeildarinnar eru í fullum gangi og fóru tveir leikir fram í kvöld.

Porto hafði betur gegn Juventus þar sem lærisveinar Andrea Pirlo sýndu mikið einbeitingarleysi og fengu mark á sig í upphafi hvors hálfleiks.

Rodrigo Bentancur gerði hrikaleg mistök í upphafi leiks þegar hann ætlaði að gefa boltann á Wojciech Szczesny. Sendingin misheppnaðist og fór knötturinn þess í stað á Mehdi Taremi sem skoraði af stuttu færi.

Hálfleikurinn var nokkuð jafn og þurfti Giorgio Chiellini að fara meiddur af velli á 35. mínútu. Merih Demiral tók stöðu hans í hjarta varnarinnar.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri og skoraði Moussa Marega eftir nokkrar sekúndur. Vörn Juve sofnaði á verðinum og staðan orðin 2-0.

Ítalíumeistararnir skiptu um gír í kjölfarið og bættu í sóknina. Alvaro Morata og Aaron Ramsey komu inn af bekknum og minnkaði Federico Chiesa muninn á 82. mínútu, eftir stoðsendingu frá Adrien Rabiot.

Nær komst Juve ekki og urðu lokatölurnar 2-1 fyrir Porto. Lærisveinar Pirlo skoruðu mikilvægt útivallarmark en þurfa að sigra á heimavelli til að komast áfram. Liðið datt úr Meistaradeildinni í fyrra eftir óvænt tap gegn Lyon.

Porto 2 - 1 Juventus
1-0 Mehdi Taremi ('2)
2-0 Moussa Marega ('46)
2-1 Federico Chiesa ('82)

Sevilla tók þá á móti Borussia Dortmund og úr varð gríðarlega mikil skemmtun þar sem Suso skoraði fyrsta mark leiksins strax á sjöundu mínútu.

Gestirnir frá Dortmund brugðust við með þremur mörkum þar sem Erling Braut Haaland var í algjöru lykilhlutverki. Hann lagði fyrst upp frábært mark fyrir Mahmoud Dahoud og skoraði svo tvennu fyrir leikhlé.

Dahoud skoraði geggjað mark með stórkostlegu langskoti en Haaland klobbaði andstæðing áður en hann gaf knöttinn til Dahoud. Hin tvö mörkin skoraði Haaland eftir laglegt samspil við Jadon Sancho og Marco Reus.

Heimamenn í Sevilla voru betri í síðari hálfleik og minnkaði Luuk de Jong muninn á 84. mínútu. Spánverjarnir komust þó ekki nær og þurfa að vinna ansi erfiðan útileik í Þýskalandi til að eiga möguleika á að komast áfram í næstu umferð.

Sevilla 2 - 3 Dortmund
1-0 Suso ('7)
1-1 Mahmoud Dahoud ('19)
1-2 Erling Braut Haaland ('27)
1-3 Erling Braut Haaland ('43)
2-3 Luuk de Jong ('84)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner